Sér vaxtarmöguleika í frístundaveiðinni

Viðureign við einn vænan í fullum gangi í sjóstangveiðiferð frá …
Viðureign við einn vænan í fullum gangi í sjóstangveiðiferð frá Akranesi.

Sjóstangaveiði fyrir ferðafólk er ný atvinnugrein á Akranesi. Hún hófst á einum bát í sumar og er rekin undir nafninu Akranes Adventures. Það er 38 ára gamall Skagamaður, Magnús Freyr Ólafsson, sem stendur einn á bak við framtakið. Magnús, sem er líffræðingur og fiskifræðingur að mennt og rekur farfuglaheimilið á Akranesi, er bjartsýnn á að starfsemin eigi eftir að vinda upp á sig. Mjór er mikils vísir segir máltækið.

Blómstrar á Vestfjörðum

„Þetta hefur gengið ágætlega,“ segir Magnús. „En við fórum of seint af stað, keyptum bátinn í janúar og auglýstum þjónustuna eftir það. Við hefðum þurft að gera það í fyrrahaust, enda bókar fólk sig yfirleitt í svona ferðir með talsverðum fyrirvara. En við erum bjartsýn á framhaldið næsta sumar og ætlum að bæta við okkur einum bát.“

Sjóstangaveiði fyrir ferðafólk hefur blómstrað á Vestfjörðum undanfarin ár. Um fimmtíu bátar eru gerðir út frá fimm stöðum. Þangað sækir Magnús fyrirmynd starfseminnar á Akranesi. Hann segir að vestfirsku fyrirtækin geti boðið upp á meiri veiði og yfirleitt stærri fiska, en á fiskimiðunum út frá Skaga sé um meiri tegundafjölbreytni að ræða og það togi í marga.

Sjóstangveiðin sem Magnús býður erlendum ferðamönnum upp á er „pakki“ sem hefur inni að halda flug til og frá landinu, akstur frá flugvelli og til baka, gistingu og leigu á sex manna bát í eina viku. Í sumar var gistingin á Farfuglaheimilinu, en stefnt er að því að byggja lítil gistihýsi fyrir ferðamennina.

Þeir sem taka bátinn á leigu verða að hafa réttindi til að stýra honum. Segist Magnús vera í nánu sambandi við Siglingamálastofnun sem fari yfir þau vottorð sem ferðamennirnir framvísa. Hægt er að ná sér í fullnægjandi réttindi hér á landi á stuttu námskeiði.

Aflinn sem veiðist er yfirleitt seldur á fiskmörkuðum, en ferðamennirnir hafa þó leyfi til að matreiða ofan í sjálfa sig. Kjósa sumir að gera það. Býður Magnús upp á aðstöðu til flökunar fyrir þá sem vilja.

Þjóðverjar spenntastir

Það eru Þjóðverjar sem eru spenntastir fyrir sjóstangaveiði við strendur Íslands. Hafa þýskar ferðaskrifstofur og ferðafrömuðir yfirleitt milligöngu um komu þeirra hingað. Sjóstangaveiði á sér ríka hefð í Þýskalandi. Engu að síður sækja Þjóðverjar í þetta sport til annarra landa, ekki síst til Noregs. Þeir eru fjölmennastir í kúnnahópnum á Vestfjörðum og það voru nær eingöngu Þjóðverjar sem sigldu frá Skaganum í sumar. Við skipulagningu á Akranesi naut Magnús ráðgjafar Þjóðverjans Jens Kalinke, sem haft hefur mikil afskipti af sjóstangaveiði hér við land.

Lyftistöng fyrir Akranes

Ferðaþjónustuna á Vestfjörðum hefur munað um þessar heimsóknir nokkur þúsund Þjóðverja og Magnús Freyr er sannfærður um að sjóstangaveiðin geti orðið ferðaþjónustu á Akranesi lyftistöng þegar fram líða stundir. Ferðaþjónusta hefur reyndar verið afar takmörkuð í bænum fram að þessu, þar sem sjávarútvegurinn hefur verið svo öflugur og kallað á þorra tiltæks vinnuafls.

Hraður vöxtur

Fyrir utan tegundafjölbreytnina á miðunum er styrkleiki Akraness í þessari nýju grein nálægðin við Keflavíkurflugvöll og höfuðborgina, verslanir og veitingastaði og það hve stutt er í aðra afþreyingu. Aðstaðan í höfninni í bænum þykir líka mjög góð.

Í uppbyggingaráætlun sem Magnús Freyr kynnti á frumkvöðlafundi á Akranesi í vor sagðist hann sjá fyrir sér að starfsemin gæti vaxið nokkuð hratt, bátarnir verið orðnir fjórir eftir tvö ár og sex árið 2017. Samhliða verði hægt að fjölga gistirýmum í tengslum við starfsemina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert