Staða Íslands styrkist

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ er ánægður með niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs.
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ er ánægður með niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs. Sigurður Bogi Sævarsson

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍU, er ánægður með niðurstöður sameiginlegs makríl-leiðangurs Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga í júlí og ágúst. Niðurstöður leiðangurins leiddu í ljós að innan íslenskrar efnahagslögsögu væru 1,6 milljón tonn, eða 18%, af heildarvísitölu makríls í Norðaustur-Atlantshafi sem er um 9 milljón tonn. Er því um mikla markrílgengd að ræða í íslenskri lögsögu.

Markmið leiðangurins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra fiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi á meðan á ætisgöngum þeirra um norðurhöf stendur, auk þess sem kannað var ástand sjávar og átustofna á svæðinu.

Mikilvægt að stíga varlega til jarðar

Kolbeinn segir það bæði gott að stofninn sé í góðu standi og að hann skuli halda sig innan íslenskrar lögsögu enn eitt árið. „Það eru engin merki um það að hann sé á förum,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir menn þurfa að stíga varlega til jarðar og nýta aflann skynsamlega. „Sú fjárfesting sem menn hafa lagt í og sú kunnátta sem menn hafa aflað sér við veiðarnar munu nýtast áfram. Vonandi verður það áfram undirstaða að góðu gengi í greininni svo hún geti skilað tekjum til samfélagsins,“ segir Kolbeinn.

Staða Íslands styrkist fyrir fyrirhugaðar viðræður

Frekari viðræður eru fyrirhugaðar í haust og sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra, í samtali við Morgunblaðið, stöðu Íslands styrkjast fyrir þeim málflutningi sem Ísland hefur haft.

Þessu er Kolbeinn sammála og segir hann niðurstöður leiðangursins réttlæta kröfu Íslands um stóra hlutdeild í stofninum. „Þetta rennur stoðum undir það sem við höfum verið að segja um að það verði að taka tillit til þess að við höfum stóra hlutdeild í þessum stofni,“ segir Kolbeinn.

Tímasetning fyrirhugaðra viðræðna er enn óljós.

Makríllinn er í góðu standi og eru engin merki um …
Makríllinn er í góðu standi og eru engin merki um að hann sé á förum úr íslenskri efnahagslögsögu. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert