„Allir eru skrítnir á einhvern hátt“

Patrick Jens Sch. Thorsteinsson
Patrick Jens Sch. Thorsteinsson Árni Sæberg

Hinn 16 ára Patrick Jens Sch. Thorsteinsson á Akranesi er um margt ólíkur jafnöldrum sínum. Hann notast við ritvél í skólanum, semur leikrit og á sér þann draum að smíða skip og sigla um höfin með vinum sínum. Hann segist frá unga aldri hafa sýnt áhuga á að klæða sig upp og líklega er óhætt að fullyrða að hann skeri sig eilítið frá flestum jafnöldrum sínum í klæðaburði.

„Kennari í skólanum segir að ég geri allt yfirdrifið,“ segir Patrcik Hann segir að fáir kippi sér upp við múnderingar hans, helst kaupir hann föt á netinu, enda sumt í fataskápnum vandfundið hér á landi. „Það er kannski mín lífsspeki að vera svolítið skrítinn, því allir eru skrítnir á einhvern hátt þrátt fyrir að þeir reyni að vera venjulegir. Þeir ættu bara að vera eins og þeir eru,“ segir Patrick.

Fátt finnst honum skemmtilegra en að klæða sig upp í búning. Hefur hann alla tíð búið til sína eigin búninga, meðal annars sýndi mamma hans, Pauline, blaðamanni mynd af Patrick uppáklæddum sem Freddie Mercury og sem vélmennið Bender úr teiknimyndaþáttunum Futurama. Hvíslaði hún því að gestinum að hann hefði alltaf unnið verðlaun fyrir besta búninginn þegar slík verðlaun hafa verið í boði.

Smálæti í ritvélinni

Ritvélina sem hann notar í Framhaldsskólanum á Vesturlandi fékk hann að gjöf frá pabba sínum. „Ritvélin var gjöf og mér fannst að einhver ætti að nota hana. Ég á líka fartölvu, þannig að ég nota ritvélina ekki alltaf. Það er líka af því það eru smá læti þegar ég nota hana og því reyni ég að nota hana bara stundum,“ segir Patrick.

Hann hefur fremur óvenjulega framtíðardrauma. „Þegar ég er búinn með menntaskóla langar mig að búa til einhvers húsbát eða sjóræningjaskip og sigla stefnulaust um höfin með vinum mínum. Ég veit ekki hversu lengi ég myndi vilja gera það. En ég vil gera það. Margir myndu segja að kostnaðurinn væri mikill, bæði í eldsneyti og annað,“ segir Patrick en slíkar vangaveltur eru seinni tíma vandamál. „En varðandi starfsframa þá langar mig að vinna hjá mömmu minni, sem býr til nammi fyrir ferðamenn. Svo tveimur til þremur árum síðar myndi ég taka við fyrirtækinu og hún getur farið að gera það sem hana langar. Þess vegna er ég á viðskiptabraut í skólanum,“ segir Patrick íhugull.

Lóðaði tunnu við hjólið

Við blaðamanni blasti heldur óvenjulegt hjól við heimili Patricks. Var þar búið að lóða fasta opna tunnu á fjallahjól. Augljóslega var um að ræða fararskjóta fyrir tvo. „Ég og Patrick bróðir minn ætluðum að búa hjólið til okkur til skemmtunar, en svo fengum við þá hugmynd að það væri gaman að nota það til þess að skutla fólki á Írskum dögum,“ segir Patrick sem hefur skutlast með gesti hátíðarinnar gegn greiðslu undanfarin ár. Patrick segist ekki vera með neinn sérstakan taxta, heldur taki hann við þeirri greiðslu sem honum býðst, sumir borgi en aðrir ekki.

Að eigin sögn hefur hann gaman af hvers kyns uppátækjum. Stundum skipuleggi hann uppátæki sín en oft fái hvatvísin að ráða líka. Meðal annars hefur hann spilað golf á húsþaki um miðja nótt og fyllt heilt herbergi með mörg hundruð pappafuglum. „Tvisvar,“ segir Patrick og hlær.

Vélmenni fer til Mars

Patrick er þessa dagana að semja leikrit sem hann vonast til að verði sýnt í Framhaldsskóla Vesturlands. „Þetta er um vélmenni sem er búið til af vísindamönnum og hefur tilfinningar. Í skólanum heyrir hann að enginn hafi farið eða geti lifað á Mars. Það finnst honum áhugavert og hann fer á bókasafnið og lærir að búa til geimskip. Á leiðinni til Mars reynir CIA að stoppa geimskipið því þeir halda að þetta sé rússneskt skip,“ segir Patrick.
Patrick Jens Sch. Thorsteinsson
Patrick Jens Sch. Thorsteinsson Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert