Almannavarnastig á neyðarstig

Holuhraun klukkan 7.23.
Holuhraun klukkan 7.23. Skjáskot/Míla

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Húsavík hefur fært almannavarnastig af hættustigi yfir á neyðarstig. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð. Þar fer fram samhæfing aðgerða og upplýsingagjöf vegna jarðhræringanna og eldvirkninnar í Holuhrauni og kringum Bárðarbungu.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar. Þar segir ennfremur að sprungugos sé hafið norður af Dyngjujökli, nyrst í Holuhrauni. Gosið hófst um miðnætti og það sést ekki á radar. Talið er að öskuframleiðsla sé óveruleg.

Vísindamenn á svæðinu telja að gosið sé nokkra kílómetra norður af sporði Dyngjujökuls og að hraun renni úr sprungu sem er talin um 1 km löng til suðausturs
og virðist renna hratt.

Veikur gosórói sést á jarðskjálftamælum í samræmi við hraungos án verulegrar sprengivirkni. Engin merki sjást um jökulhlaup. Vísindamenn sem verið hafa við störf skammt frá gosinu fylgjast með því í öryggri fjarlægð.

Lokanir eru í gildi á hálendinu norðan Vatnajökuls sem og í Jökulsárgljúfrum að Dettifossi, vestan megin. Lögregla og hópar frá björgunarsveitum á Norðausturlandi sinna lokunum inn á mögulegt áhrifasvæði gossins. Hópur sem var á hálendisvakt björgunarsveita í Landmannalaugum styrkir lokanir á Gæsavatnaleið. Á fjórða tug björgunarsveitamanna taka þátt í aðgerðum sem stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert