Vandar Íslendingum ekki kveðjurnar

Færeyska skipið Næraberg, liggur nú við bryggju við Vogabakka í …
Færeyska skipið Næraberg, liggur nú við bryggju við Vogabakka í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skipverji á  Nærabergi, færeyska skipinu sem liggur nú við höfn við Vogabakka í Reykjavík en fær ekki hefðbundna þjónustu, vandar Íslendingum ekki kveðjurnar í aðsendu bréfi til fréttavefsins jn.fo.

Hann segir Íslendinga eiga að skammast sín fyrir að vera tregir til að hleypa skipinu, sem lenti í vandræðum eftir að vélin bilaði, að íslenskri höfn og neita því næst að veita því þjónustu. Vísar hann meðal annars í fjárhagslega aðstoð sem Færeyjar veittu Íslendingum eftir bankahrunið 2008. „Þetta eru þakkirnar,“ segir skipverjinn sem skrifar bréfið. 

Skipið Næraberg er í eigu Næraberg P/f í Færeyjum og gerir út frá Klaksvík. Um borð  í skipinu er um 1.000 tonn af fiski. Vélarbilunin kom upp í fyrradag, en skipið hafði verið á veiðum við Grænland.

Svo virðist sem tekist hafi að laga hluta bilunarinnar þannig að skipið gat siglt á 4 – 5 sjómílna hraða. Í gær bilaði vélin aftur og því var óskað því að skipið fengi að koma til hafnar á Íslandi. 

Frétt mbl.is: Færeyingar fá ekki olíu í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert