Allt í einu var eins og skrúfað væri fyrir gosið

Þorbjörg Helga Ágústsdóttir, sem stundar doktorsnám í jarðeðlisfræði, fékk hraunhnullung …
Þorbjörg Helga Ágústsdóttir, sem stundar doktorsnám í jarðeðlisfræði, fékk hraunhnullung úr Holugosinu. mbl.is/Eggert

Sveinbjörn Steinþórsson tæknimaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og doktorsnemarnir Þorbjörg Ágústsdóttir og Tim Readfield sem leggja stund á nám í jarðeðlisfræði við Cambridge-háskólann, voru fljót á vettvang í fyrrinótt. Þau keyrðu undir norðurljósum með rauðan bjarma við sjóndeildarhringinn.

Eldgos var hafið, svo mikið var víst, en þegar þau nálguðust var allt í einu eins og skrúfað væri fyrir. Þrátt fyrir það keyrðu þau eins nálægt og komast mátti og náðu í sjóðheitan hraunhnullung. Þar með eignuðust þau bita af nýjasta hluta Íslands.

„Það var lítið að sjá í nótt. Við keyrðum með sterk norðurljós og stjörnur fyrir ofan okkur og rauðan bjarma beint á móti okkur. Við komum hingað að Öskju tuttugu mínútur í eitt, keyrðum töluvert lengra út á sandinn og þá jókst gosið en svo datt þetta niður. Svo datt það í dúnalogn.

Skjálftarnir halda áfram og það virðist vera enn töluverð færsla á GPS-mælum frá okkur. Skjálftarnir hættu samt meðan eldurinn logaði og það verður gaman að fylgjast með þessu áfram,“ segir Sveinbjörn

Tim Readfield og Þorbjörg stunda nám í jarðeðlisfræði við Cambridge-háskóla í Bretlandi. Með sanni má segja að engin kennslustofa toppi upplifun þeirra í fyrrinótt þegar þau voru meðal þeirra fyrstu og fárra sem sáu gosið.

Kennslustund sem doktorsnemarnir gleyma seint

„Ég fékk kennslustund sem ég gleymi seint og er fullviss um að aðrir nemendur öfunda okkur Þorbjörgu mikið. Að fá þetta beint í æð var draumur að rætast, algjör draumur,“ segir Tim sem vonast til þess að geta verið á Íslandi sem lengst til að upplifa og rannsaka þær jarðhræringar sem nú eiga sér stað á landinu.

„Ég er ekki enn kominn með flugmiða heim enda veit ég ekki hvenær ég fer. Ætli ég kaupi mér ekki bara miða þegar ég þarf en vonandi verður það ekki strax, því mig langar að vera á Íslandi sem lengst til að fylgjast með þessum jarðhræringum.“

mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert