Um 450 jarðskjálftar frá miðnætti

Lokanir eru enn í gildi við norðanverðan Vatnajökul.
Lokanir eru enn í gildi við norðanverðan Vatnajökul. mbl.is/Eggert

Um 450 jarðskjálftar hafa mælst í norðanverðum Vatnajökli frá miðnætti, flestir á þeim stað þar sem kvikugangurinn hefur verið að lengjast. Stærsti skjálftinn varð kl. 07:03 í öskju Bárðarbungu, 5,4 stig. Þar varð einnig skjálfti að stærð 4,5 stig kl. 02:35 og 4,2 kl. 06:18 í morgun.

Skjálftarnir eru sagðir tengjast landsigi þar sem dregið hefur úr magni kviku í kvikuhólfinu.

Að sögn Veðurstofu Íslands hefur ekki mælst nein aukin virkni eða órói á svæðinu.

Mesta virknin mælist í kvikuganginum um 4 km suður af jökulrönd Dyngjujökuls að Holuhrauni þar sem sprungugos varð í fyrrinótt. Minni skjálftar hafa mælst fyrir norðan svæðið og ekki eru merki að svo stöddu um að kvikugangurinn haldi áfram að teygja sig til norðurs. Stærstu skjálftarnir norðan við svæðið hafa mælst 2,7 stig kl. 03:01 í nótt og 2,8 stig kl. 06:19.

Einnig hefur mælst minniháttar virkni við Öskju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert