Vörn og sókn á víkingahátíð

Á annað þúsund manns tóku þátt í víkingahátíð í Slagelse í Danmörku í sumar. Rúmlega þrjátíu Íslendingar, á vegum víkingafélagsins Rimmugýgja, stærsta starfandi víkingafélags hér á landi, tóku þátt en félagið fer stækkandi með hverju árinu og eru meðlimir þess nú yfir 140 talsins.

„Þarna myndast ótrúleg stemning. Þetta er í raun eins og eitt stórt ættarmót“ segir Ingólfur Már Grímsson, einn af bardagaþjálfurum félagsins, um hátíðina.

Félagið sækir ýmsar víkingahátíðir á hverju ári og er það vinsælt meðal meðlima þess. Ingólfur segir fólk koma hvaðanæva að til þess að taka þátt. „Víkingarnir fóru víða, versluðu eða settust að svo það er mikill áhugi fyrir þessu erlendis.“ Þá segir hann félögin vera öflugust á Norðurlöndunum en þátttakendur koma einnig frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Póllandi, Rússlandi og Þýskalandi.

Víkingahátíðin í Slagelse er eins konar markaðshátíð og stendur yfir í níu daga. Þangað koma heilu fjölskyldurnar og taka börnin þátt í hátíðinni með foreldrum sínum. Þátttakendur klæða sig upp í víkingaföt og sofa í tjöldum á svæðinu.

Æfa fyrir bardagana

Í lok vikunnar eru svo haldnar keppnisorrustur. Á milli 200-300 manns taka þátt í bardögunum og er þeim skipt í tvö lið. Á undan bardögunum fara kóngar liðanna með ræður sem Ingólfur segir vera eins konar leiksýningu „Þeir takast á sín á milli og kalla svo sína menn í orrustu.“

Herforingjar liðanna tveggja halda fundi með liðum sínum þar sem farið er yfir málin fyrir bardagann. Þeir sem taka þátt í þessum bardögum æfa flestir allt árið. „Það fær ekki hver sem er að taka þátt. Þarna eru menn sem kunna að fara með þessi vopn“ segir Ingólfur en í bardögunum eru notuð sverð, axir, spjót og fleira til þess að koma andstæðingunum úr jafnvægi. 

Í bardögunum er fylgt ákveðnu heiðursmannakerfi þar sem sá sem verður fyrir höggi dæmir sjálfur hvort það hafi verið löglegt. Það lið sem safnar flestum stigum sigrar.

Fyrst og fremst íþrótt

Víkingafélagið Rimmugígur æfir tvisvar í viku í Hafnarfirði. Ingólfur segir þetta fyrst og fremst vera íþrótt þar sem kennd sé vörn og sókn. „Við kennum mismunandi tækni til þess að komast í gegnum vörnina hjá andstæðingnum, hvernig á að fara með vopnin og annað.“

Meðlimir félagsins eru úr öllum stéttum samfélagsins og fyrir alla sem hafa gaman af því að leika sér. „Hér eru læknar, nemar, rafvirkjar og hárgreiðslumenn svo það er af nóg að taka“ segir Ingólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert