„Gætu verið komnir gígar á morgun“

Gosið hefur verið kröfugt í allan dag og hraunstreymi mikið.
Gosið hefur verið kröfugt í allan dag og hraunstreymi mikið. ljósmynd/vefmyndavél Mílu

Ármann Höskuldsson, jarðvísindamaður á Raunvísindastofnun, hefur verið við eldstöðvarnar í Holuhrauni í dag ásamt öðrum vísindamönnum. Ármann segir gosið vera búið að vera kröftugt í allan dag og ekki að sjá að það sé að draga úr því. Um 700 skjálftar hafa mælst á Bárðarbungusvæðinu frá miðnætti. 

Ármann segir hraunið vera búið að byggjast upp í dag og hraunkatlarnir séu nú farnir að brotna undan kröftugu hraunstreyminu. „Hrauntungurnar koma hérna tugi metra á mínútu.”

Vonskuveður var á svæðinu í dag og gekk illa að sjá eldgosið vegna moldroks. Þá sást lítið í vefmyndavél Mílu en skyggni er nú gott og sést vel til gossins. Ármann og aðrir á svæðinu eru að koma sér af svæðinu áður en myrkur skellur á.

Þótt erfitt sé að segja fyrir um framhaldið telur Ármann að það hljóti að fara að draga úr gosinu fljótlega.

„Nú bíður maður eftir því að það fari að dragast saman og mynda einn gíg eins og það ætti að gera. Í fyrramálið gætu verið komnir einn eða tveir gígar.“

Til stendur að TF-SIF fljúgi yfir svæðið í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert