Morgunblaðið til bjargar

Valur tengir. Plús í plús og mínus í mínus.
Valur tengir. Plús í plús og mínus í mínus. Eggert Jóhannesson

Valur og Sigurður Sigurðssynir voru á gæsaveiðum í Mývatnssveit þegar bíllinn þeirra, Toyota Hilux eða „Gamli gráni“ eins og þeir kölluðu hann, varð rafmagnslaus. Þeir stóðu því uppi á vegi í kolvitlausu veðri, miklum vindi og gríðarlegri rigningu, og biðu hjálpar. Enginn stoppaði hins vegar fyrr en fararskjóti Morgunblaðsins kom aðvífandi.

Valur og Sigurður höfðu verið að skjóta gæsir við Skútustaði og höfðu 30 gæsir upp úr krafsinu. Heimamenn tala um gæsaplágu í sumar, slíkur er fjöldinn.

Eftir að veiði var hætt var tölt í bílinn sem vildi ekki í gang. Nú voru góð ráð dýr enda stormurinn byrjaður með sínum ógnarvindi og rigningu. Valur hljóp upp á veg til að veifa bílum en enginn stoppaði. Hann var því orðinn frekar kaldur þegar Morgunblaðsmenn bar að garði - fúsa að hjálpa.

„Ætli þetta hafi ekki allt verið útlendingar sem keyrðu framhjá mér. Ég er kannski ekki best klæddur til að vera veifandi úti á miðjum vegi,“ sagði Valur en venju samkvæmt var hann í gæsaveiðigallanum, sem útlendingum þykir eflaust ógnvekjandi.

Gamli gráni hrökk í gang og fóru þeir félagar sína leið með bráðina í skottinu, fegnir að fá óvænta heimsókn frá Morgunblaðinu, og þökkuðu kærlega fyrir sig.

Sigurður með startkaplana. Tilbúinn að tengja.
Sigurður með startkaplana. Tilbúinn að tengja. Eggert Jóhannesson
Þeir Valur og Sigurður urðu auðvitað að sitja fyrir á …
Þeir Valur og Sigurður urðu auðvitað að sitja fyrir á mynd - svona fyrst þeim var bjargað af Morgunblaðinu. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert