„Þetta er mun öflugra gos“

Svona leit gosið út snemma í morgun.
Svona leit gosið út snemma í morgun. Ljósmynd/Sveinbjörn Steinþórsson

„Þetta er miklu öflugra gos en síðast. Það er miklu, miklu meira hraun að koma í þessu gosi en hinu gosinu,“ segir Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, en hann skoðaði eldgosið í Holuhrauni í morgun, ásamt fleiri vísindamönnum.

„Strókarnir eru 20-30 metra háir. Það eru engar sprengingar í gosinu. Gosið kom upp á nákvæmlega sama stað og um daginn, nema að sprungan nær 700-800 metrum lengra til norðurs. Sprungan er komin út á sandinn, þ.e. út fyrir Holuhraunið.

Þetta er miklu meira hraun en var í gosinu um daginn. Virknin er stöðug á um 1.200 metra langri sprungu. Það er einn gígur syðst á sprungunni sem stendur stakur, en síðan gýs á allri sprungunni.“

Sveinbjörn sá líka gosið sem byrjaði 29. ágúst. Það gos stóð aðeins í um fjóra klukkutíma. „Það gos dó eiginlega strax. Það dró úr því þegar við vorum að keyra frá Holuhrauni, en byrjaði svo aftur í smástund. Þetta eldgos er búið að vera í gangi síðan við komum um klukkan sex í morgun og það virðist ekkert vera að falla niður. Það breyttist lítið meðan við fylgdumst með því. Það jókst aðeins meðan við vorum að keyra að því og hefur verið óbreytt í um tvo klukkutíma. Það er komið talsvert mikið hraun hérna austan megin við sprunguna, en við sjáum ekki hvað það er komið mikið hraun vestan megin.“

Vísindamennirnir sneru frá gosstöðvunum um klukkan átta í morgun. Veður var þá farið að versna. Talsvert mikill sandstormur er á svæðinu og þurrt. Spáð er versnandi veðri fyrir austan þegar líður á daginn.

Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður frá Jarðvísindastofnun Háskóla Ísland.
Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður frá Jarðvísindastofnun Háskóla Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert