Áfram gýs en dregur úr skjálftum

Eldgosið í Holuhrauni - mynd tekin um sexleytið í morgun.
Eldgosið í Holuhrauni - mynd tekin um sexleytið í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni, skammt norður af Dyngjujökli, í nótt og er gosóróinn lítill. Enn skelfur jörð í og við norðanverðan Vatnajökul en dregið hefur úr fjölda skjálftanna. Enn mælast stærstu skjálftarnir við Bárðarbungu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Myndir úr vefmyndavélum af gosinu sýna að það er enn töluverður gufustrókur frá því og skyggni gott. 

Martin Hensch, eldfjallaskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að stærsti jarðskjálftinn í nótt hafi mælst 4,5 stig en upptök hans voru 5,3 km norðaustur af Bárðarbungu um fimmleytið. Annar jarðskjálfti upp 4,2 stig var síðan um 3:09 og voru upptök hans 5,2 km ASA af Bárðarbungu. Klukkan 2:25 varð jarðskjálfti upp á 3,9 stig og voru upptök hans 4,4 km NA af Bárðarbungu. 

Að sögn Martins er ekki hægt að segja til um framhaldið með vissu en mjög líklegt sé að jarðskjálftahrinunni sé hvergi nærri lokið á þessum slóðum.

Hann segir að gosóróinn sé enn til staðar, það sjáist í vefmyndavélum sem eru á staðnum og á mælum jarðvísindamanna. Jarðvísindamenn eru að störfum á staðnum og væntanlega koma nýjar upplýsingar um gosið síðar í dag. Eins verður flogið yfir gosstöðvarnar í dag. 

Mjög hefur dregið úr jarðskjálftum í kvikugöngunum og nálægt eldgosinu sjálfu en með eldgosinu dregur úr þrýstingi. Sem þýðir færri og minni jarðskjálftar.

Hér er hægt að sjá eldgosið

Facebook síða Jarðvísindastofnunar
Eldgosið í Holuhrauni - mynd tekin um sexleytið í morgun, …
Eldgosið í Holuhrauni - mynd tekin um sexleytið í morgun, þann 1. september mbl.is/Eggert Jóhannesson
Eldgosið í Holuhrauni - séð yfir á sjöunda tímanum í …
Eldgosið í Holuhrauni - séð yfir á sjöunda tímanum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert