Gerir tímamótarannsóknir á heilanum

Íris Dröfn Árnadóttir
Íris Dröfn Árnadóttir Ljósmynd/Íris Dröfn Árnadóttir

„Þetta er hiklaust eitthvað sem notast verður við í framtíðinni,“ segir Íris Dröfn Árnadóttir, meistaranemi í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún vinnur að tímamótarannsóknum á heilastarfsemi þessa dagana með því að prenta út taugabrautir í þrívídd.

„Með þessu var ég að halda áfram með verkefni sem var búið að vinna innan tækni- og verkfræðideildar þar sem höfuðkúpur voru prentaðar út í þrívídd, ásamt æxli, til að aðstoða lækna við undirbúning aðgerða,“ segir Íris. Verkefnið vinnur hún á Heilbrigðistæknisetrinu, sem HR og Landspítali-háskólasjúkrahús stofnuðu í nóvember á síðasta ári.

„Ég er að kortleggja taugabrautir í heila á sjúklingum sem eru með æxli. Með því að hafa þessa kortlagningu prentaða út í þrívídd geta heilataugaskurðlæknar fengið þrívíddarmódel af sjúklingum sínum útprentað nokkrum dögum fyrir aðgerð og æft sig að gera aðgerðina fyrirfram,“ segir Íris. Hún segir þetta stytta aðgerðartíma, sem minnki kostnað við aðgerðir, auk þess sem þetta geri aðgerðir þægilegri fyrir bæði sjúklinga og lækna. Allt auki þetta öryggi sjúklings.

Minnkar áhættu af aðgerð

Íris segir mikilvægt fyrir skurðlækna að vita hvernig taugabrautirnar liggja, hvernig æxli í heilanum líti út og hvar það sé staðsett. „Læknar nota tækni í dag sem nýtist vel til að gefa mynd af þessu en með þrívíddarprentuninni er viðfangsefnið orðið áþreifanlegra og um leið minnkar áhættan af aðgerðinni.“

Jafnframt segir hún mikilvægt að hver og einn heili sér skoðaður út af fyrir sig, áður en skorið er upp. „Enginn heili er eins. Oft eru æxli búin að þrýsta ákveðnum taugabrautum eitthvert sem þau eiga ekki að vera. Með kortlagningunni er hægt að sjá nákvæmlega hvernig taugabrautirnar liggja; hvort æxlið sé búið að ýta þeim frá eða liggi í gegnum taugabrautirnar til dæmis.“

„Oft eru læknar búnir að ákveða aðgerðina og hvað þeir ætla að gera en með því að hafa módelið geta þeir þreifað fyrir sér og séð hvernig þetta raunverulega er,“ segir Íris. „Þetta eykur nákvæmni hjá skurðlæknum og minnkar skaða eftir skurðaðgerðir; læknar geta til dæmis komist hjá því að skadda málsvæði tiltekins sjúklings eða einhverja skynjun hjá sjúklingi því þá hafa þeir fyrir framan sig sirka hvernig taugabrautirnar liggja og geta farið varlegar á því svæði. Sérstaklega í þeim tilfellum sem eru flókin eða einhver óvissa með.“

Hvergi notað annars staðar í heiminum

Þessi vinnsla er mjög nákvæm og gefur góða raun. „Ísland er eina landið, svo við vitum til, þar sem svona módel er notað í klínískri starfsemi,“ segir Íris. „Við erum þau einu sem notum bæði kortlagninguna og þrívíddina sem klínískt verkfæri. Læknar nota þetta við að æfa sig og til að hjálpa sér.“

Hugmyndin kviknaði í samstarfi við Dr. Paulo Gargiulo, kennara við HR og prófessor, og Ingvar Hákonsson, heilataugaskurðlækni á Landspítalanum. „Paulo sér um alla þrívíddargerð á Íslandi sem læknar eru að nýta sér. Hann er sérfræðingurinn í þessari þrívíddarprentun,“ segir Íris. Hún segir mikilvægt fyrir heilbrigðisverkfræðinga að nýta krafta sína til að aðstoða lækna og gera vinnu þeirra einfaldari og öruggari.

„Skemmtilegt að sjá hvað aðrir eru að gera“

Íris segir gaman að sjá hvað aðrir heilbrigðisverkfræðingar eru að gera, en dr. Mark Holmes, einn fremsti vísindamaðurinn í taugasjúkdómafræði í heiminum í dag, hélt fyrirlestur í HR í dag. HR fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun Tækniháskóla Íslands sem sameinaður var HR árið 2005. Hluti af hátíðarhöldunum er opin fyrirlestraröð í HR þar sem fræðimenn fjalla um rannsóknir á kjarnasviðum háskólans: tækni, viðskiptum og lögum. 

Fyrsti fyrirlesturinn var haldinn í dag og fjallaði hann um heilbrigðisverkfræði. Holmes hefur síðastliðin 20 ár rannsakað taugavísindi og þróun tækni sem getur örvað heilastarfsemi „Þetta var fróðlegur fyrirlestur. Það er skemmtilegt að sjá hvað aðrir eru að gera,“ segir Íris. „Þetta gefur manni hugmyndir um hvað maður getur gert og hvernig maður getur aðstoðað innan þessa geira.“

Dr. Mark Holmes.
Dr. Mark Holmes. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert