Laus úr gæsluvarðhaldi

Vogar á Vatnsleysuströnd.
Vogar á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Vogar

Maður sem grunaður er um aðild að grófri lík­ams­árás og frels­is­svipt­ingu hinn 6. ág­úst síðastliðinn hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi en bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram maðurinn sé grunaður um aðild að hrottalegu ofbeldi í húsi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Maðurinn sem varð fyrir ofbeldinu greindi lækni frá því að hann hafi verið tekinn af nokkrum mönnum og haldið föngnum í sex til átta klukkustundir. Mennirnir hefðu síðan beitt hann margháttuðu ofbeldi. Að sögn læknisins hafi brotaþoli verið með litla rauða bletti á líkamanum sem komið geti heim og saman við frásögn hans um að beitt hafi verið með rafbyssu. Þá hafi hann verið með marblett við vinstra auga, roða yfir andliti, rauða dökka rák á hálsi og marga blóðbletti. Þá hafi hann einnig verið með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning.

Það var mat embættis lögreglustjóra að maðurinn, sem sat í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins til 27. ágúst, muni halda afbrotum áfram gangi hann laus. Dómari við héraðsdóm fellst á það með lögreglustjóra að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Hins vegar sé ekki nægjanlega sýnt fram á að nauðsynlegt sé að halda honum áfram í gæsluvarðhaldi og því var beiðni lögreglustjóra hafnað. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu síðan fyrir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert