Umferðarmet slegið í ágúst

Umferðarmet var slegið í ágúst.
Umferðarmet var slegið í ágúst. Morgunblaðið/Styrmir Kári

„Umferðin í ágúst hefur aldrei verið meiri. Við erum að tala um nýtt met,“ segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri á umferðardeild Vegagerðarinnar. Um er að ræða 7,5% aukningu borið saman við ágústmánuð á síðasta ári en Friðleifur segir þetta koma mjög á óvart.

„Við bjuggumst ekki við svona mikilli aukningu. Við erum með sextán staði víðsvegar um landið þar sem við erum að telja og allstaðar mældist aukning sem er meiri en væntingar stóðu til. Það er sjálfsagt engin ein skýring á því hví svo er. Það er heldur ekki hægt að kenna neinni staðbundinni skýringu um þar sem þetta er eins allstaðar. Gögnin sem við styðjumst við eru ekki persónugreinanleg, þetta eru einfaldir teljarar sem telja bara fjölda bíla sem fara um viðkomandi svæði. Við vitum því ekki hvort um ferðamenn er að ræða eða hvort sami maðurinn fari um svæðið oftar en einu sinni,“ segir hann og bætir við að skyndileg aukning á umferð, eins og raun ber vitni, sé ekki endilega jákvæð.

Von á 5,1% aukningu á milli ára

„Hóflegur vöxtur er æskilegur. Ef menn mæla mjög brattan vöxt ár eftir ár þá getur það stungið einhverntíman síðar. Við erum ekkert að fetta fingur út í einstaka mánuði en við erum að tala um 5,1% aukningu á umferð á milli ára ef hún heldur sama dampi út árið. Maður vill helst ekki sjá meiri aukningu en fimm prósent á milli ára. Innviðir kerfisins verða að geta fylgt almennilega með hvað varðar viðhald og annað,“ segir Friðleifur. Hann bætir auk þess við að umferð um Vesturland hafi aukist hvað mest á milli ágústmánuða en að umferð um Suðurland hafi aukist mest frá áramótum.

„Þrátt fyrir þessa miklu umferð í ágúst þá var hún meiri í júlí. Umferðin í júlí sló þó ekki met líkt og hún gerði í júní og ágúst,“ segir Friðleifur en bætir við þeim varnagla að um grófrýnd gögn sé að ræða og einstaka staðir af þessum sextán gætu hafa gefið rangar upplýsingar. Það ætti þó ekki að hafa mikil áhrif á heildarniðurstöður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert