Ingimar bakar ekki-kleinur

Ýmiss konar bakkelsi er bakað og selt í bakaríinu Brauðvali á Akranesi, en eitt vekur sérstaka athygli; brúnir og óreglulega lagaðir ferningar í poka sem bakarinn, Ingimar Garðarsson, kallar „ekki-kleinur“.

„Kleinurnar hjá mér seldust alltaf upp,“ segir Ingimar. „Þegar fólk kom inn í bakaríið og sá það urðu margir leiðir, jafnvel fúlir og spurðu: Áttu ekki kleinur? Svona gekk þetta um tíma og einhvern veginn varð ég að þjóna þessu fólki sem spurði hvort ég ætti ekki kleinur. Þannig að ég bjó til ekki-kleinur; kleinukubba úr afskurðinum. Þarna var ég einfaldlega að svara óskum kúnnans,“ segir Ingimar og bætir við að smjör og ostur eigi sérlega vel við afurðina.

Fyrsta ekki-kleinan var tekin út úr ofni Ingimars fyrir um fjórum árum og síðan þá hefur hróður þeirra vaxið. Þær eru býsna eftirsóttar að hans sögn en fást þó eingöngu í Brauðvali.

Ekki-snúður ekki væntanlegur

Þrátt fyrir þessa hylli ekki-kleinanna segist Ingimar ekki hnoða sérstaklega í þær, heldur sé eingöngu afskurðurinn notaður eftir að skornar hafa verið út kleinur. „Þarna er ég náttúrlega að nýta allt hráefnið, ég henti þessu áður og þótti það leiðinlegt. Annars átti ég aldrei von á að ekki-kleinurnar yrðu svona vinsælar.“

Spurður hvort hann hyggi á frekari vöruþróun ekki-bakkelsis, eins og t.d. ekki-snúðs eða ekki-vínarbrauðs, segir hann það ekki á döfinni. Aftur á móti hafi hann hug á nýjum útgáfum af gömlu góðu kleinunni. „Ég bakaði karamellukleinur um daginn sem ruku út. Ef ég held áfram með þær er spurning um að kalla þær hinsegin kleinur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert