Flugvélin er ekki fundin enn

Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Grænlenskar björgunarsveitir hafa enn ekki fundið litla flugvél sem lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli á fimmtudaginn á leið til Kulusuk á Grænlandi. Vonir standa enn til þess að flugmaður vélarinnar finnist á lífi en hann var einn í henni.

Fram kemur á fréttavefnum The Arctic Journal að leit hafi staðið yfir í dag en henni verið hætt seinni partinn þegar fór að skyggja. Ekki liggur fyrir ákvörðun um það hvort haldið verður áfram leit á morgun. Leitin að flugvélinni hófst á fimmtudaginn eftir að flugumferðarstjórar á Grænlandi misstu samband við hana. Engar ratsjárstöðvar eru á austurströnd landsins og því verða flugvélar sem leið eiga um svæðið að gefa upp staðsetningu sína um talstöð.

Þegar sambandið við flugvélina slitnaði hafði hún nægt eldsneyti til flugs í tvær og hálfa klukkustund. Sá möguleiki hefur ekki verið útilokaður að vélinni hafi tekist að lenda einhvers staðar en björgunarsveitir á legi og í lofti hafa lagt áherslu á leit á svæðinu austur af bænum Tasiilaq.

Frétt mbl.is: Flugvél hvarf á leið frá Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert