Skotar vilja flengja elítuna

AFP

Verður Elísabet að lokum bara drottning Litla Englands og hvað á Filippus, hertogi af Edinborg, að kalla sig ef Skotar velja sjálfstæði? Geta Walesbúar stutt Celtic áfram? Þetta er eins og að nema brott hjartað úr breska þjóðarlíkamanum, segja sumir. Svo samslungin sé saga þjóðanna. Skotland hafi ekki um langt skeið verið kúgað af Englendingum. Sjö af forsætisráðherrum Bretlands gegnum tíðina hafi verið innfæddir Skotar og fjöldi annarra áhrifamanna í pólitík, fjármálum og atvinnulífi hafi verið með skoskt blóð í æðum.

Ráðsettir valdamenn í London eru furðu lostnir en reyna að forðast óenska tilfinningasemi. Líka þeir sem rekja ættir sínar til Skotlands.Þeir hafa allir lagt sig fram um að vara Skota við efnahagsáföllum, rutt úr sér tölunum og um leið lofa þeir á síðustu metrunum aukinni valddreifingu, jafnvel á sviði skattlagningar. Sumir kalla þetta mútur. En þá er spurt hvort skoskir þingmenn í London eigi að hlutast til um skattalög í Englandi. Eiga Englendingar þá ekki rétt á þingsætum í Edinborg?

Hægrisinnaðir sambandssinnar hampa hins vegar sameiginlegri sögu Breta og breskum gildum. Stoltinu. Bretar hafi staðið fyrir miklum framförum í heiminum, umburðarlyndi, lýðræði og öfgaleysi. Ríkið sé nú eins og mósaíkmynd nokkurra þjóða sem allar gegni lykilhlutverki.

Skotar séu lengra til vinstri en Englendingar, meiri stuðningsmenn Evrópusambandsins og mótvægi við stærstu þjóðina, segir velskur sambandssinni í bréfi til tímaritsins Spectator. Hann og fleiri bréfritarar nánast grátbiðja Skota um að hverfa ekki á brott, þeir vilji ekki hafa það á tilfinningunni að Skotland sé orðið „útland“.

Aftur heim eftir fimm ár?

En ein af röksemdum sjálfstæðissinna er að Skotar geti haft það betra efnahagslega ef þeir yfirgefa sambandið, ekki síst vegna olíulindanna í Norðursjó. En þær munu tæmast og ekki er um að ræða atkvæðagreiðslu sem má endurtaka ef mönnum líkar ekki sjálfstæðið eftir nokkur ár.

Fyrir hálfu ári virtist ljóst að tillagan yrði felld. Hvers vegna hefur sjálfstæðissinnum á nokkrum mánuðum tekist að vinna svo mjög á? Stjórnmálaskýrendur segja að ein skýring geti verið að í Skotlandi eins og fleiri vestrænum ríkjum vilji kjósendur nú refsa hefðbundnum ráðamönnum fyrir raunveruleg og ímynduð mistök.

Alex Salmond, leiðtoga sjálfstæðissinna, hafi tekist að hasla sér völl sem fulltrúi slíkra óánægjuafla og höfða vel til tilfinninga almennings. Einnig lofar hann að bæta kjör allra, auka velferðina. Hann er rómantíski riddarinn á hvíta hestinum, að vísu dálítið þéttvaxinn, sem ætlar að flengja þá alla, David Cameron, Nick Clegg og Ed Miliband. Margir vonast til að sjá veruleikafirrta elítuna engjast, hvort sem þeir vilja sjálfstæði eða samband.

Sameinaða konungsríkið, The United Kingdom, á sér 307 ára sögu og aðeins einu sinni, um miðja 18. öld, kom til innbyrðis stríðs sem stóð þó stutt.

Tillögur höfðu oft komið fram um algera sameiningu landanna frá því að fyrsti Stuart-konungurinn, Jakob 1., tók við konungdómi í Englandi 1603, fyrir var hann konungur Skota. Enskir íhaldsmenn voru margir fullir efasemda en aðrir vildu sameiningu. Þannig myndu Englendingar loks stöðva gamla, herskáa fjendur.

Skotar vildu efla efnahag sem var á vonarvöl. Þeir höfðu m.a. tapað stórfé á misheppnuðu nýlenduævintýri í núverandi Panama. Nú fengju þeir aðgang að mörkuðum í Englandi og nýlendunum. Samningaviðræðurnar tóku aðeins þrjá daga.

AFP
AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert