Stjórnmálin engin endastöð

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Ég held að allflestir sem hafa fylgst með þessu máli og horfa á það með einhverri sanngirni sjái að það hefur gengið út fyrir allt. Ég held að það sé algerlega augljóst,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í þættinum Eyjan á Stöð 2 í kvöld. Vísaði hún þar til lekamálsins svokallaðs og sagðist ekki víkja sér undan gagnrýni. Hins vegar hefði umfjöllun DV um málið að hennar mati gengið allt of langt.

Hanna Birna upplýsti að aðstoðarmaður hennar, Þórey Vilhjálmsdóttir, væri að íhuga að leita réttar síns gagnvart DV vegna aðdróttana sem fram hefðu komið í samskiptum við starfsmenn blaðsins. „Það eru samskipti sem ég held að flestir myndu telja að væru ekki eðlileg samskipti eða skeytasendingar blaðamanns til neins einstaklings í samfélaginu. Hvort sem hann er aðstoðarmaður ráðherra eða ekki.“

Ráðherrann sagði aðspurð að skeytasendingarnar hefðu meðal annars verið á þá leið að það væri eins gott fyrir Þóreyju að játa glæpinn annars yrði fjallað um málið í forsíðufrétt. Spurð hvort hún hafi séð þessi samskipti sagði Hanna Birna svo vera. Hún sagðist aðspurð ekki vilja tala um hótanir. DV hafi verið mikið í mun að fjalla um málið. „Ég ætla ekki að fella neina dóma um það. Hún kýs og er alvarlega að íhuga að leita réttar síns og það er eitthvað sem hún á við sig.“

Staða hennar sjálfrar væri hins vegar talsvert önnur þar sem hún væri stjórnmálamaður sem væri þar með hluti af hinu opinbera umhverfi. Hún gæti ósköp lítið gert. Um stjórnmálamenn væri fjallað með ákveðnum hætti og við það yrðu þeir að búa. Hanna Birna segist aldrei hafa litið á stjórnmálin sem einhverja endastöð í sínu lífi. Sagðist hún alveg geta séð sig fyrir sér á einhverjum tímapunkti til dæmis í öflugu framsæknu fyrirtæki.

Spurð hvort hún hafi gert mistök í lekamálinu sagðist hún klárlega hafa gert ýmis mistök í því. Málið væri enda án fordæma. Það væri ekki nýtt að upplýsingar rötuðu í fjölmiðla með þessum hætti en ekki hafi áður verið farið með slíkt mál með þeim hætti sem gert hefði verið í þessu tilfelli. Það hafi hins vegar gerst og hvorki ráðuneyti hennar né hún sjálf hafi áður verið í þeirri stöðu. Engar skrifaðar reglur hafi verið um viðbrögð við slíku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert