23 skjálftar í nótt

Holuhraun
Holuhraun Skapti Hallgrímsson

Jarðskjálftavirkni virðist svipuð og síðustu nætur en á umbrotasvæðinu mældust 23 skjálftar, þar af níu í Bárðarbungu. (Þetta eru um helmingi færri skjálftar en síðustu nótt, en svipað og þarsíðustu nótt.)

Stærstu skjálftarnir urðu upp úr miðnætti, skjálfti sem mældist 3,6 stig klukkan 00:11 og 3,7 stig klukkan 00:14 við suðurjaðar Bárðarbungu. Annar af svipaðri stærð varð svo klukkan 02:27 en hann var 3,4 stig. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á eftir að fara yfir hann nánar.

Hrina við Herðubreiðartögl og Herðubreið er enn í gangi, níu skjálftar mældust þar í nótt og fimm skjálftar við Dreka í Dyngjufjöllum.

Dreifingarspár benda til að styrkur brennisteinstvíildis (SO2) geti orðið hár á NA-landi, einkum í Mývatnssveit, Kelduhverfi, Tjörnesi, Húsavík, Aðaldal og Reykjahverfi í dag. Ekki er útilokað að mengunarinnar gæti á stærra svæði en samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar eru loftgæði í góðu lagi á þessum stöðum núna.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert