Hippó á Hólmavík nýtur hylli

Hippó er blanda heimiliskattar og pernesks kattar.
Hippó er blanda heimiliskattar og pernesks kattar.

Sældarlegur köttur á Hólmavík á fjölda aðdáenda um heim allan. Kisinn sá heitir Hippopotamus, oft kallaður Hippó og á heimili hjá Sigurði Atlasyni sem rekur Galdrasafnið á Ströndum. „Hingað á safnið koma margir útlendingar. Það fyrsta sem sumir segja er: Hvar er þessi Hippó? Þeir hafa þá frétt af honum í gegnum Facebook- eða Twitter-síður Galdrasafnsins eða frá öðrum sem hafa komið á safnið,“ segir Sigurður.

Hippó sem er á 9. ári og er blanda heimiliskattar og persnesks lítur gjarnan inn á safninu á hverjum degi, gestum þess til ánægju og yndis. Hann er vinsælt myndefni og hafa margir bloggað um köttinn og deilt upplifun sinni af honum á samfélagsmiðlum og þannig hefur hróður hans aukist. Sigurður segir aðdáunina hafa stigið kettinum til höfuðs um tíma, þó hafi hann ekki ofmetnast að ráði og sé bæði góðhjartaður og ljúfur. Til marks um það nefnir Sigurður þegar Hippó lagði flækingsköttum lið fyrir nokkrum árum með því að leyfa útgáfu póstkorta sem prýdd voru mynd af honum og seld til styrktar Kattholti. Það góðverk

Hippós fékk nokkra umfjöllun á sínum tíma, talsvert fé safnaðist með þessu framtaki og Sigurður segir ekki loku fyrir það skotið að kötturinn leggi fleiri góðgerðarmálum lið í framtíðinni.

Minni tími til spjalls

Á Galdrasafninu eru ýmsir gripir sem tengjast göldrum og iðkun þeirra. Spurður um hvaða safngripur hafi mesta aðdráttaraflið segir Sigurður það vera nábrókina. Samkvæmt þjóðsögunum var hún fengin með því að flá húð af nýlátnum manni frá mitti og sá sem klæddi sig í hana átti að draga að sér peninga. Sú nábrók sem er til sýnis á safninu er þó ekki tilkomin á framangreindan hátt, en Sigurður segir að margir gestir spyrji forviða hvort brækurnar á safninu séu virkilega úr mannshúð.

Sigurður segir heimsóknum á safnið hafa fjölgað talsvert með auknum fjölda ferðamanna á svæðinu.„Bæði koma fleiri og svo eru hlutfallslega miklu fleiri gestir sem hafa virkilegan áhuga og þekkingu á sögu og menningu landsins. Ekki ætla ég að kvarta yfir aukinni aðsókn, síður en svo, en það gefst ekki jafn mikill tími nú og áður að spjalla við fólkið. Ég sakna þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert