Inflúensan ekki farin að láta á sér kræla

Bóluefni gegn árlegri inflúensu er nú tilbúið til afhendingar en það inniheldur vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009/2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B. Bólusetning gegn inflúensu veitir allt að 60-70% vörn gegn sjúkdómnum, að því er segir á vef landlæknisembættisins.

Þá segir, að jafnvel þó bólusettur einstaklingur fái inflúensu þá séu allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.

„Eins og undanfarin ár er ekki nákvæmlega vitað á þessari stundu hvaða tegund inflúensu muni herja á landsmenn veturinn 2014 til 2015. Inflúensan er enn ekki farin að láta á sér kræla hér á landi en ávallt má búast við henni í kringum áramótin,“ segir á vef embættisins.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Þungaðar konur.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert