Gylfi: Verður að tryggja fólkinu tekjur

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Kristinn Ingvarsson

„Okkur finnst þetta svo alvarlegt á svo viðtækum grunni. Horfandi á skattamál, matarskattinn, skattalækkanir efnaðasta fólksins og fyrirtækjanna á landinu, vinnumarkaðsmálin, heilbrigðismálin og fleira er ljóst að þetta er með þeim hætti að ekki er hægt að vinna í einhverju nánu samráði við ríkisstjórn sem hefur þessa stefnu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, aðspurður um yfirlýsingu sem miðstjórn ASÍ sendi frá sér í dag.

Þar kemur m.a. fram að sambandið lítið á fjár­lög­in fyr­ir næsta ár sem aðför að al­mennu launa­fólki og tel­ur eng­an grund­völl fyr­ir frek­ara sam­starfi eða sam­ræðu við rík­is­stjórn­ina verði frum­varpið óbreytt að lög­um. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar kalli á að aðild­ar­fé­lög ASÍ und­ir­búi sig fyr­ir harðari deil­ur við gerð kjara­samn­inga en verið hafa í ára­tugi.

Breytingar frumvarpsins með ólíkindum

Að sögn Gylfa var gengið frá samkomulagi við ríkisstjórnina á síðasta ári. „Þar hét hún nú öllu fögru um samráð og samvinnu, og skipaði sérstaka ráðherranefnd um samskipti við aðila vinnumarkaðarins. Átti að vera samræða um bæði peninga og gengismál, atvinnumál, velferðar- og félagsmál og fleira en litlu hefur verið áorkað. Til að mynda hefur ráðherranefndin ekki  komið saman síðan í janúar.“ 

Gylfi segir breytingarnar í fjárlagafrumvarpinu séu með ólíkindum. „Það er algjörlega óheyrt að það séu settar fram breytingar á bótarétti í atvinnutryggingum sem ASÍ samdi um 1955. Heldur hafa aldrei gerist ámóta skerðingar án þess að það hafi verið að minnsta kosti sest að samráði um málið.“

Verður að tryggja fólkinu nægar tekjur

Gylfi segir jafnframt ef að fjárlagafrumvarpið verði óbreytt að lögum þurfi að tryggja að tekjur fólks séu nægilega háar til þess að takast á við skerðingarnar.

„Fyrst og fremst verður að tryggja það að fólk hafi nægilegar tekjur til þess að takast á við þessar skerðingar, það er ekkert annað að gera. Það þarf að borga reikningana. Gagnvart stöðu okkar félagsmanna munum við ræða á komandi tímum hvernig við getum samið við atvinnurekendur, ekki bara um launaliðinn heldur þau atriði sem eru í okkar kerfi og geta gert fólki auðveldara fyrir,“ segir Gylfi. 

„Það þarf til að mynda að borga aukinn kostnað vegna matvæla og húsnæðis. Ef að stjórnvöld ætla ekki að gera neitt í húsnæðismálum hinna tekjulægstu þá verðum við bara að tryggja það að þeir hafi nægilegar tekjur til að borga húsleiguna eins og hún er í landinu í dag.“

Frétt mbl.is. Fjárlögin „aðför að launafólki“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert