Handtekinn grunaður um njósnir

Ma Jisheng, sem var sendiherra Kína á Íslandi, er sagður …
Ma Jisheng, sem var sendiherra Kína á Íslandi, er sagður hafa verið handtekinn í Kína grunaður um njósnir. mbl.is/Kristinn

Kínversk stjórnvöld hafa handtekið fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi og eiginkonu hans. Þau eru grunuð um að hafa njósnað fyrir japönsk stjórnvöld. 

Frá þessu er greint í kínverskum og japönskum fjölmiðlum, m.a. hér.

Haft er eftir kínverskum embættismanni að fulltrúar kínversku þjóðaröryggisstofnunarinnar hafi  handtekið sendiherrann, Ma Jisheng, og eigkonu hans, Zhong Yue, snemma á þessu ári.

DV greindi frá því í byrjun þessa mánaðar að ekkert hefði spurst til sendiherrans á Íslandi eftir að hann yfirgaf landið í janúar.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is, að sendiherrann hafi yfirgefið landið í janúar. Hún segir að kínverska utanríkisráðuneytið hafi í maí tilkynnt íslenskum stjórnvöldum um það að Ma myndi ekki snúa aftur af persónulegum ástæðum. Næstráðandi í sendiráðinu, Chen Laiping, hefur verið starfandi sendiherra á Íslandi frá því í janúar. Ekki liggur fyrir hvenær nýr sendiherra verður skipaður.

Tekið er fram, að kínverska utanríkisráðuneytið hafi enn ekki staðfest þessar fréttir. Þá er vísað til þess að enn sé að finna ræður á heimasíðu kínverska sendiráðsins á Íslandi sem Ma hafi flutt. 

Ma starfaði sem ritari hjá kínverska sendiráðinu í Japan frá 1991 til 1995. Svo aftur sem fulltrúi á milli áranna 2004 og 2008. Hann sneri þá aftur til Kína þar sem hann starfaði sem aðstoðarforstjóri upplýsingamála hjá utanríkisráðuneytinu. Árið 2012 tók hann svo við sendiherrastöðunni á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert