Neitar að hafa ætlað bana sambýliskonunni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Ungur karlmaður neitar að hafa ætlað að bana sambýliskonu sinni í júlí sl. en hann viðurkennir að hafa veitt henni alvarlega áverka. Þetta kom fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ríkissaksóknari ákærði manninn fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist á konuna með hnífi.

Til vara er maðurinn, sem er 23 ára gamall, ákærður fyrir sérstaklega hættulega árás.

Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari segir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi við þingfestinguna játað að hafa valdið konunni þeim áverkum sem lýst er í ákæru. Maðurinn sagði aftur á móti ekki muna allt sem gerðist umrædda nótt.

Konan, sem er 22 ára, fram á maðurinn greiði henni 8,3 milljónir króna í skaðabætur. Maðurinn féllst að miklu leyti að greiðslu skaðabóta en hann taldi miskabæturnar of háar.

 Í ákærunni segir, að maðurinn hafi veist að sambýliskonu konu sinni á heimili þeirra í Grafarholti í júlí sl. og stungið hana með hnífi aðfararnótt laugardagsins 5. júlí.

Fram kemur að maðurinn hafi ráðist á konuna í stofu íbúðarinnar og hrint henni þannig að hún féll við. Þá sparkaði hann í andlit hennar þar sem hún lá á gólfinu og sló hana einnig í andlitið.

Þá stakk hann hana með þremur stungum með hnífi í hnakka, háls og kvið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut djúp sár.

Árásin telst varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 2. mgr. 218. gr sömu laga. Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Aðalmeðferð fer fram 7. október nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert