Áfram í haldi vegna árásar

Grundarfjörður. Mynd úr safni.
Grundarfjörður. Mynd úr safni. Þorkell Þorkelsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands þess efnis að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 13. október næstkomandi. Maðurinn hefur verið ákærður fyrir hafa ásamt öðrum manni ráðist að þeim þriðja og valdið honum stórfelldum áverkum á höfði aðfaranótt 17. júlí sl.

Sakamálið á hendur mönnunum tveimur var þingfest í Héraðsdómi Vesturlands 15. setepmber síðastliðinn. Mennirnir eru ákærðir „fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí 2014, á hafnarsvæðinu í Grundarfirði, í sameiningu ráðist á A, kennitala [...], ákærði Y með því að slá A hnefahögg í andlitið svo hann missti meðvitund og skall aftur fyrir sig og lenti harkalega með höfuðið á jörðinni, og ákærði X sem fylgdi á eftir með því að slá A liggjandi og meðvitundarlausan á jörðinni tvö hnefahögg í andlitið svo höfuðið skall harkalega á jörðinni, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka, þar með talið mar á höfuðleðri ofan við hægra eyra á stóru svæði, mjúkpartabólgur utan við hægra kinnbein og meira áberandi bólgur, mar og blæðingu hægra megin aftarlega á hvirfli utan höfuðkúpu, beinbrot hægra megin aftarlega á gagnaugablaðsbeini, sem gekk áfram niður í höfuðkúpubotn og aftur að hnakkabeinshluta höfuðkúpu, dreift mar innan höfuðkúpu í hægra neðanverðu heilahveli með bólgu og miðlínutilfærslu heila yfir til vinstri með aukinn bjúg og blæðingar hægra megin, sem leiddi til heilaskaða, meðal annars með verulegum minnisskerðingum og skertri hæfni til skilnings og tjáningar, auk máttminnkunar og skertrar líkamlegrar hreyfigetu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert