Furðaði sig á gagnrýni ASÍ

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætis- og dómsmálaráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætis- og dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Það skýtur skökku við að Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, gagnrýni fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar enda markmiðið með því að bæta verulega stöðu íslenskra heimila. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, á Alþingi í morgun í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem innti ráðherrann eftir viðbrögðum við gagnrýni Gylfa.

„Það er verið að auka ráðstöfunartekjur heimilanna, það er verið að lækka verðlag og þar með skuldir heimilanna. Það er verið bara með skattkerfisbreytingum að skila fjórum milljörðum króna til heimilanna og með fjárlagafrumvarpinu öllu 40 milljörðum, 40 milljörðum, aftur til fólksins í landinu frá því sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þannig að þrátt fyrir að forseti Alþýðusambandsins hafi sýnt mikið langlundargeð allt síðasta kjörtímabil, að langmestu leyti, þá virðist það þrjóta nú þegar hlutirnir eru allir að færast mjög til betri vegar og hefur orðið alger viðsnúningur frá stefnu síðustu ríkisstjórnar,“ sagði Sigmundur.

Árni Páll spurði hvort ástæðan fyrir gagnrýni Gylfa gæti verið sú að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlaði að grípa til kæmi sér síst vel fyrir félögum í ASÍ. Verið væri að skerða réttindi fólks innan sambandsins, auka álögur á venjulegt fólk og flytja byrðar á allan almenning en létta á móti á þá sem best stæðu. Sigmundur sagði ekki rétt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stuðluðu að misskiptingu. Markmiðið væri þvert á móti að efla kjör þeirra sem hefðu milli- og lægritekjur. Verkamenn hefðu bætt kjör sín langmest í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði Sigmund út í fyrirvara þingmanna Framsóknarflokksins við fjárlagafrumvarpið og svaraði forsætis- og dómsmálaráðherra því til að þeir sneru að almennri aukningu ráðstöfnunartekna og lækkun verðlags. Spurði hún hvort ráðherrans teldi að sú yrði raunin og vísaði í bæði í gagnrýni ASÍ og Bændasamtakanna. Munurinn á fyrirliggjandi frumvarpi og fjárlagafrumvörpum fyrri ríkisstjórnar væri sá að áður hafi álögur á alla verið hækkaðar en nú væri markmiðið að bæta kjör allra.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert