Hlíðarendi verði notaður í kirkjugarð

Gufuneskirkjugarður verður fullsettur eftir átta til tíu ár.
Gufuneskirkjugarður verður fullsettur eftir átta til tíu ár. mbl.is/Þórður

Fyrirhugaðar framkvæmdir á Hlíðarenda munu losa um hálfa milljón rúmmetra af jarðvegi sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma telja að muni henta vel í nýjan kirkjugarð. Aðeins átta til tíu ár eru í að Gufuneskirkjugarður verði fullsettur og því þarf fljótlega að fara huga að nýjum greftrunarstað.

Umræður um nýjan kirkjugarð í Reykjavík og hvar hann á að vera hafa staðið frá því fyrir aldamót. Kirkjugarðarnir fá úthlutað landi frá sveitarfélögunum sem eru á þjónustusvæði þeirra og fengu Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma úthlutað lóð árið 2000 í Stekkjabrekkum við Vesturlandsveg. Það land var þremur árum síðar tekið af Kirkjugörðunum og notað undir Korputorg. Í staðin var kirkjugarðinum fundinn staður suðvestan við Úlfarsfell.

Vinnan við hönnun kirkjugarðs í Úlfarsfelli var nokkuð langt á veg komin þegar hún var sett á ís. Meðal annars var búið að fara í samkeppni og velja Landmótun til að vinna að mótun kirkjugarðsins. Landið sem fara átti undir kirkjugarð er um tuttugu hektarar og hefði rúmað um þrjátíu þúsund leiði. En þá varð hrun.

Hverfið sem reis ekki

Kirkjugarðinn átti að fylla upp með jarðvegi sem fengist með uppbyggingu nýs hverfis sem rísa átti í Úlfarsárdal. Þegar hins vegar efnahagur þjóðarinnar fór á hliðina og fyrirséð að framkvæmdir í Úlfarsárdal myndu frestast þurftu Kirkjugarðarnir að leita að nýju landi. Sóst var eftir landi þar sem ekki þurfti uppfyllingu með jarðvegi og varð Geldinganes fyrir valinu. En við það tók Reykjavíkurborg landið við Úlfarsfell til baka.

„Síðan kemur upp sú staða núna að Valsmenn eru að ráðast í heilmiklar framkvæmdir við Hliðarenda og þar munu losna um hálf milljón rúmmetra af ágætis jarðvegi sem hentar vel í kirkjugarð,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. „Þeir þurfa að losna við jarðveginn og það er stutt upp í Úlfarsfellið. Þetta væri því ágæt lausn fyrir alla.“ Áætlað er að jarðvegsframvæmdir á Hlíðarenda hefjist í haust og uppbygging næsta vor.

Þórsteinn sendi á dögunum umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar fyrirspurn um það hvort ekki sé hægt að fá landið við Úlfarsfell skráð aftur inn á aðalskipulag sem kirkjugarð. „Við vorum búin að láta gera samkeppni um svæðið og höfum látið teikna það, þannig að það var dálítið sárt að þurfa skilja við svæðið þegar við vorum að hugsa um Geldinganesið. En það var eingöngu af praktískum ástæðum og sökum þess hversu stuttan tíma við höfum.“

Ekki seinna vænna að hefja undirbúning

Töluverðan tíma tekur að útbúa kirkjugarð en til dæmis þarf svæðið að drena, gróðursetja þarf tré og koma upp gatnakerfi. Því telur Þórsteinn ekki seinna vænna að hefja undirbúninginn. „Það eru ekki nema svona átta til tíu ár í að Gufuneskirkjugarður verður fullsettur hvað varðar kistugrafir. Þá verður búið að grafa í öll ný svæði og eingöngu grafið í frátekin í framhaldi af því.“

Hann segir að lítið hafi gerst í skipulagsmálum á Geldinganesi og þrátt fyrir að ekki þurfi að fylla upp í landið þar leiki vafi á hvort það reynist gott svæði. „Við erum því að vinna hörðum höndum að því að fá þetta land [Úlfarsfellið] aftur inn í skipulagið eins og var. Við ætlum þá að láta flytja jarðveginn þangað þannig að við getum tekið á móti kistum samhliða því að Gufuneskirkjugarðurinn fyllist.“

Fyrirspurnin var ekki tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráði heldur var málinu frestað.

Fréttir mbl.is um framkvæmdirnar á Hlíðarenda:

Svona mun Hliðarendi líta út

Íbúðir á Hlíðarenda gætu orðið 850

Áherslan á smærri íbúðir við Hlíðarenda

Líkir Hlíðarenda við evrópskar borgir

Úlfarsárdalur.
Úlfarsárdalur.
Þórsteinn Ragnarsson
Þórsteinn Ragnarsson mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert