Ólafur kærir Katrínu

Ólafur Haukur Johnson.
Ólafur Haukur Johnson. mbl.is/Eggert

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar, hefur kært Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, til ríkissaksóknara fyrir leka á trúnaðargögnum. Ólafur segir að gögnunum hafi verið lekið í pólitískum tilgangi.

Ólafur hefur sent fjölmiðlum afrit af kærunni sem er dagsett í dag.

Þar segir, að Katrín hafi árið 2010, þegar hún var ráðherra menntamála, hafið pólitíska aðför að skólanum og að honum persónulega.

„Tel ég að aðal ástæðan hafi verið sú að skólinn var einkarekinn sem samræmdist ekki pólitísku viðhorfi hennar. Því vildi hún skólann feigan,“ segir í bréfinu.

Ólafur segir að þetta hafi leitt til þess að trúnaðarupplýsingum hafi verið lekið úr ráðuneytinu í DV í þeim tilgangi að skaða orðspor skólans og mannorð hans. Ólafur tekur fram, að honum sé ekki ljóst hver lak þessum upplýsingum í blaðið en segir svo „sennilega hefur það verið Katrín Jakobsdóttir sjálf eða aðstoðarmaður hennar, Elías Jón Guðjónsson.“

Ólafur fullyrðir, að aðför ráðherra að skólanum hafi haft þau áhrif að 210 nemendur  sem voru í skólanum misstu sinn vinnustað og að 20 starfsmenn hafi misst vinnuna. Einnig segir hann að skólinn og eigendur hans hafi orðið fyrir miklu fjártjóni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert