Rökrétt framhald á stefnu Íslands

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þátttaka í samningaviðræðum um svonefndan TiSA-samning er rökrétt framhald af þeirri stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa rekið undanfarna áratugi. Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í sérstakri umræðu um samninginn á Alþingi í dag en málshefjandi var Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Birgitta sagði ljóst að Alþingi hefði ekki verið upplýst um viðræðurnar enda hvíldi mikil og ólýðræðisleg leynd yfir þeim. Sagði hún viðræðurnar ganga út á að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hefðu það. Yrði samningurinn að veruleika myndi það auka mjög á ójöfnuð.

Benti utanríkisráðherra á að vægi þjónustuviðskipta væri ört vaxandi hluti af fríverslunarviðræðum. Þá væru þjónustuviðskipti að samaskapi ört vaxandi hluti af utanríkisviðskiptum Íslendinga. Sagði hann þær skuldbindingar sem Ísland hafi lýst sig reiðubúið að gangast undir í tengslum við TiSA-samninginn væru sambærilegar við þær sem landið hefði þegar gengist undir í þeim fríverslunarviðræðum sem það hefði átt aðild að á liðnum árum. Hlestu markaðssvæði heimsins og viðskiptaríki Íslands ættu aðild að viðræðunum um TiSA-samninginn og við um mikla hagsmuni að ræða fyrir landið.

Utanríkisráðuneytið leiddi viðræðurnar um TiSA-samningin fyrir Íslands hönd. Allar ákvarðanir um framhald viðræðnanna af hálfu Íslands lægu þar í samráði við viðkomandi fagráðuneyti og starfsvenjur í íslensku stjórnsýslunni. Þá hefði utanríkismálanefnd Alþingis verið haldið upplýstri um málið og þannig yrði það áfram. Samningurinn yrði gerður opinber strax og hann hefði verið undirritaður. Almennt séð væru viðræðurnar þannig á engan hátt frábrugðnar öðrum viðræðum á alþjóðavettvangi sem Ísland ætti aðild að. Engin leynd hvíldi yfir þeim. Sagðist hann þannig ekki deila að fullu áhyggjum þingmannsins.

Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður.
Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert