Skyggnst inn í aðra heima og sálina

Vigdís Steinþórsdóttir hefur unnið sem hjúkrunarfræðingur í tæp 40 ár …
Vigdís Steinþórsdóttir hefur unnið sem hjúkrunarfræðingur í tæp 40 ár og hefur yndi af að hjálpa öðrum. mbl.is/Malín Brand

Rafmengun, túlkun drauma, inniloft og föstur eru á meðal fjölmargs sem fræðast má um í Mosfellsbænum um helgina þar sem heilsuhátíðin Heimsljós verður haldin. Að baki Heimsljósi stendur Mannræktarfélag Íslands og er messan, eins og heilsuhátíðin er gjarnan kölluð, haldin í Lágafellsskóla fimmta árið í röð. Þar kemur saman fríður hópur fólks sem áhuga hefur á náttúrulækningum, heilsunni og umhverfinu, kynnir sig og kynnist öðrum á sömu bylgjulengd.

Hátt í hundrað manns kynna þjónustu sína, námskeið, vörur og framar öllu deila þeirri þekkingu sem þátttakendur hafa viðað að sér. Vigdís Steinþórsdóttir er annar skipuleggjenda Heimsljóss en hún hefur ásamt Guðmundi Konráðssyni unnið ötullega að skipulagningu fjölbreyttrar dagskrár sem hefst á laugardagsmorgun í Lágafellsskóla og lýkur á sunnudagskvöldi með hópheilun. Rétt er að vekja sérstaka athygli á að annað kvöld verður sérstök Heilunarguðsþjónusta í Lágafellskirkju þar sem þátttakendur Heimsljóss heila kirkjugesti.

Hlúð að veikum í Dýrafirði

Sjálf var Vigdís ekki gömul þegar hún fann hjá sér mikla þörf til að hjálpa öðrum, hlúa að og lækna. Hún er Vestfirðingur í húð og hár, fædd og uppalin í Lambadal í Dýrafirði. „Ég ólst upp frjáls innan um dýrin og fór fljótlega að hjálpa dýrum sem áttu bágt,“ segir hún og minnist eljunnar við að koma lömuðu lambi á fætur með endurhæfingu og öðru lambi bjargaði hún úr skurði og hafði inni hjá sér. „Ég hafði það í kassa á gólfinu og alltaf klukkan þrjú á nóttinni vaknaði lambið og ég gaf því að drekka,“ ssgir Vigdís með bros á vör. Hún vissi það þá að hún ætti eftir að læra hjúkrun og það gerði hún. „Átján ára gömul fór ég siglandi með Esjunni til Akureyrar til að vinna þar á sjúkrahúsinu til að athuga hvort þetta væri örugglega rétt ákvörðun hjá mér.“ Vigdís hafði yndi af starfinu og var staðráðin í að læra hjúkrun. Núna, hátt í fjörutíu árum síðar lítur hún til baka sátt við að hafa fetað þessa braut.

Litirnir skipta máli

Ef litið er á lífið sem eins konar ferðalag má segja að Vigdís hafi einhvers staðar um miðbik þess staldrað við og íhugað andleg mál af heilum huga. Hún sá sterk og mikilvæg tengsl á milli líkamlegrar og andlegrar líðanar og bætti við sig þekkingu til að geta hjálpað fólki betur. „Ég lærði kristalheilun hjá breskum miðli sem kom hingað og kenndi fólki um heilun og orkuna sem maður leyfir að streyma í gegnum sig til annarra. Maður notar líka steina til að heila því allt í kringum okkur er tíðni, við erum tíðni og mismunandi tíðni í hverju líffæri. Það er mismunandi tíðni í steinunum líka og litirnir í steinunum skipta miklu meira máli en maður gerir sér grein fyrir,“ segir Vigdís sem lærði bæði um liti í heiluninni sem og í myndlistarnámi sínu og á heimili hennar er fjöldi fallegra málverka eftir hana sjálfa í dásamlegum litum. „Litir skipta nefnilega mjög miklu máli.Til dæmis litir fatanna sem við klæðumst. Fólk mætti endilega vera duglegt að klæða sig í ýmsum litum því svartur litur dregur saman áruna okkar og þá verðum við veikari fyrir en hvítur stækkar áruna okkar, gerir okkur sterkari og öruggari með okkur,“ segir hún.

Heilbrigðisstörf og andleg mál

Ekki eru allir á eitt sáttir um að taka mið af andlegri líðan fólks þegar það leitar sér hjálpar vegna líkamlegra kvilla. Vigdís er sannfærð um að andleg heilsa og líkamleg sé samofin og að heilbrigðisstarfsfólk ætti að vinna mun meira með andlegu þættina en raun ber vitni. „Ég fann fljótt að mér fannst við í heilbrigðisgeiranum ekki gera nóg og við klikkum oft á því að spyrja fólk hvernig því líður andlega. Við þurfum að spyrja hvernig fólki líður til að gefa því séns á að opna sig. Öll okkar áföll skila sér út í líkamann sem verkir eða einhver vanlíðan,“ segir Vigdís sem horfir mikið til beggja þátta þegar hún hjálpar fólki. Hún nefnir sérstaklega bókina Hjálpaðu sjálfum þér, eftir Louise L. Hay og segir að sú bók hafi reynst einstaklega vel og margt gott megi af henni læra. „Maður lærir að lesa líkamann og í hvaða part maður setur hvaða tilfinningu. Verkur á einum stað vísar til þeirrar tilfinningar sem maður er að fást við.“ Hún hefur trú á að viðhorfið innan heilbrigðisstéttarinnar muni breytast. „Ég vona það því við skiljum svo mikið eftir með því að skilja tilfinningapakkann útundan. En ég finn að heilbrigðisstéttin er aðeins að opnast,“ segir hún. Stutt er síðan Vigdís komst á eftirlaun og nú nýtir hún tímann vel til að hjálpa börnum og fullorðnum Það er köllun Vigdísar að hjálpa öðrum. Og þar komum við að Heimsljósi!

Heimsljósið skín skært

Síðastliðin sautján ár hefur Vigdís haldið Kærleiksdaga víðsvegar um landið. „Þá finn ég fólk til að vinna með alls konar náttúrulegar meðferðir. Þá erum við heila helgi að vinna með okkur sjálf og leyfum okkur að njóta, bæði andlega og líkamlega,“ segir hún og af þeirri hugmynd kom sú næsta sem var að halda stóra heilsuhátíð, eða heilsumessu í líkingu við sambærilegar hátíðir sem Vigdís kynntist í Svíþjóð og dreymdi um að sjá hér á landi. „Þarna erum við að gera alls konar frá því við opnum í Lágafellsskóla klukkan 11 á laugardagsmorgni. Það eru fyrirlestrar og hefst nýr fyrirlestur á hverjum klukkutíma, kynningar eru haldnar á ganginum, fólk gefur gestum ýmiss konar prufutíma sem hver er 20 mínútna langur og getur verið í heilun, bowen eða einhverju öðru. Allir þeir sem koma að heilsumessunni gefa vinnu sína,“ segir Vigdís.

Skyggnilýsingar fyrir alla

Hugleiðsluherbergi verður á staðnum og verður boðið upp á margs konar hugleiðslu. Sem dæmi má nefna búddíska hugleiðslu og qi gong hugleiðslu. Á heila tímanum hefst ný hugleiðsla og er fólki frjálst að nýta sér það að vild, alla helgina. „Svo verðum við með stóra tíma þar sem meðal annars verður skyggnilýsing sem Jón Lúðvíksson miðill heldur utan um. Transmiðill sér um transmiðlun og svo verða bæði gyðjudans og trommudans í hóptíma,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir, skipuleggjandi Heimsljóss. Veitingastaður með heilsufæði verður á staðnum og sömuleiðis kaffihús þar sem lifandi tónlist mun hljóma. Á sunnudeginum lýkur heilsumessunni með hópheilun sem iðulega er vinsæll dagskrárliður. Þá mynda gestir hring og heilarar standa fyrir aftan og fjórir miðlar koma sér fyrir utan við hringinn og lýsa því að heilun lokinni hvað gerist og hvernig orkan streymir og lýsa þeim verum sem koma fram í heiluninni. Dagskráin í heild er á vefsíðunni www.heimsljos.is en nánar er fjallað um hana í ramma hér til hliðar á síðu 10. Þeir sem hyggjast sækja heilunarguðsþjónustuna í Lágafellskirkju á föstudagskvöldið ættu að vera mættir tímanlega en messan hefst klukkan 20.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert