Þeysast um Skuggahverfið

Hér má sjá þær götur sem verða lokaðir frá klukkan …
Hér má sjá þær götur sem verða lokaðir frá klukkan 16 til 18 á laugardaginn.

Á laugardaginn mun hjólreiðakeppnin KexReið 2014 verða haldin í miðbænum. Þetta er í annað skiptið sem keppnin er haldin en hún er samstarfsverkefni Kex Hostel og Kría Cycles.

KexReið er haldin í Skuggahverfinu um braut sem liggur um Skúlagötu og Hverfisgötu og er um að ræða 30 kílómetra leið. Keppendur verða ræstir klukkan 17 við Vitagarð og er gert ráð fyrir því að fyrstu keppendur komi í mark um klukkustund síðar. Keppt er í kvenna- og karlaflokki.

Í kjölfar keppninnar verða götulokanir í Skuggahverfinu frá klukkan 16 til 18 á keppnisdag. Er það gert til þess að tryggja öryggi keppenda sem og annarra vegfarenda á keppnissvæði. Lokanirnar verða vaktaðar af sjálfboðaliðum frá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hluti skráningargjalds rennur til Hjálparsveitarinnar.

Þegar fyrstu keppendur klára vegalengdina þá klára allir þann hring sem viðkomandi er á. 

„Við vorum með þessa keppni í fyrra. Vorum þá með 15 kílómetra vegalengd og 30 kílómetra. Í ár verður þó aðeins 30 kílómetra. Keppnishringurinn sjálfur er 1,9 kílómetri á lengd,“ segir Böðvar Guðjónsson, einn af skipuleggjendum keppninnar í samtali við mbl en um  80 manns kepptu í KexReiðinni í fyrra. 

Íslandsmeistarar kljást

Böðvar gerir ráð fyrir mikilli spennu á laugardaginn. „Íslandsmeistarinn í ár er búinn að skrá sig og Íslandsmeistarinn í fyrra þannig það verður áhugavert að sjá þá kljást.“

Um 30 hafa skráð sig í keppnina en að sögn Böðvars er fólk yfirleitt seint að skrá sig. Skráningu lýkur á morgun og fer hún fram á www.kexland.is og er 2500 króna keppnisgjald.

Peningaverðlaun eru veitt fyrir fyrstu sætin í karla- og kvennaflokki en jafnframt eru veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sætið í báðum flokkum. Í verðlaun eru gjafabréf frá Kex Hostel, Sæmundi í sparifötunum, Veitingarstaðnum að Hverfisgötu 12, DILL Restaurant, Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, Kría Cycles, Reiðhjólaverzluninni Berlín, Farmers Market og Geysi.

„Síðan um kvöldið slúttum við þessu með tónleikum inná Kex Hostel með Boggie Trouble. Þeir hefjast klukkan níu og það er ókeypis inn og allir í stuði,“ segir Böðvar.

Sprenging í hjólreiðakeppnum

Aðspurður um þessar auknu vinsældir hjólreiða segir Böðvar hálfgerða sprengingu hafa orðið í hjólakeppnum í sumar. „Reyndar er hjólamenningin alltaf að stækka hér á landi sem er mjög gott.“

Böðvar hvetur þá sem taka ekki þátt í keppninni að koma samt í Skuggahverfið og fylgjast með. „Mér skilst að þeir bestu nái allt að 60 til 70 kílómetra hraða þannig þetta verður alvöru.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá götulokanir sem verða frá klukkan 16 til 18 í Skuggahverfinu.

Böðvar Guðjónsson, skipuleggjandi KexReiðarinnar.
Böðvar Guðjónsson, skipuleggjandi KexReiðarinnar. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert