Tryggi búnað á flugvöllum

Ásmundur Friðriksson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Ásmundur Friðriksson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tólf þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu en þar er Alþingi falið að álykta um að fela innanríkisráðherra að tryggja að á Vestmannaeyjaflugvelli og Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþega- og fragtflugvélum og vélum í ferjuflugi sem hafa nú heimild til þess að fljúga um vellina.

Þingsályktunartillagan var einnig lögð fram á síðasta þingi. 

„Flugvellirnir í Vestmannaeyjum og á Ísafirði gegna mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rekstur flugvallanna og uppbyggingu á svæðunum til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning flugvallanna býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna og á Ísafirði eru möguleikar til að sinna þjónustu við fragtflug og við störf vísindamanna á austurströnd Grænlands. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að ákvæði viðeigandi reglugerða verði uppfyllt og tryggt að til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan þeirri þjónustu sem eftirspurn er eftir,“ segir í tillögunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert