65,6% hjóluðu í skólann

Styrmir Kári

Verkefnið Hjólum í skólann, þar sem nemendur og starfsmenn framhaldsskólanna kepptust um að nýta sem oftast virkan ferðamáta til og frá skóla, er nú lokið. Keppt var í þremur stærðarflokkum og sigruðu Menntaskólinn á Ísafirði, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og Menntaskólinn við Hamrahlíð sína flokka.

Verkefnið stóð frá 12. til 16. september og er um samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Hjólafærni á Íslandi, Embætti landlæknis, Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Sambands Íslenskra framhaldsskólanema að ræða. í tilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að alls tóku nítján framhaldsskólar þátt en það eru tveimur fleiri skólar en árið 2013. Þátttakendur voru alls 1.236 og hjólaðir voru 12.528 km eða 9,36 hringir í kringum Ísland. Samkvæmt upplýsingum ÍSÍ skiptist ferðamáti þátttakenda eftirfarandi: hjólað 65,6%, strætó/ganga 19,4%, ganga 11,9%, strætó/hjólað 2,0%, hlaup 1,0%, annað 0,2% og línuskautar 0%.

Markmið verkefnisins var að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta meðal nemenda og starfsmanna framhaldsskólanna. Þess má geta að frá því í fyrra, þegar Hjólum í skólann var haldið í fyrsta sinn, hefur orðin mikil aukning á þeim sem völdu að hjóla í skólann en hlutfallið var 37,9% í fyrra. Verðlaunaafhendingin fer fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, mánudaginn 22. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert