Bréfspjöld og kóngarnir tveir

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson.
Sigtryggur Rósmar Eyþórsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar voru sigursælir á Philakorea, sýningu FIP sem eru alþjóðasamtök frímerkjasafnara, en hún var haldin í Seoul í Suður-Kóreu í síðasta mánuði. Þeir Sigurður R. Pétursson og Sigtryggur Rósmar Eyþórsson unnu til verðlauna en þátt tók fjöldi fólks víðsvegar að úr heiminum.

Góður alþjóðlegur árangur

„Í alþjóðlegu samfélagi frímerkjasafnara þykir þetta góður árangur. Íslensk söfn fara aðeins á alþjóðlegar sýningar hafi þau komist á aðrar til dæmis í heimalandi, á Norðurlöndunum og í Evrópu og vakið athygli þar,“ segir Sigtryggur.

Sýning Sigurðar R. Péturssonar sem vann silfrið bar yfirskriftina

Two Kings. Eins og nafnið ber með sér eru þetta svokölluð tveggja kónga frímerki með mismunandi verðgildi og mynd af Danakonungunum Friðrik 8. og Kristjáni 9., sem báðir voru um skeið þjóðhöfðingjar Íslands. Voru merki þessi gefin út á árunum 1907 til 1908 og svo aftur 1913 til 1918.

Það var svo Sigtryggur sem vann gullið fyrir safnið Icelandic postal stationary 1879 – 1920, það eru íslensk bréfspjöld með mismunandi verðgildi. Safnið var fyrst í eigu Hálfdáns Helgasonar, seinna eignaðist áðurnefndur Sigurður safnið og nú er það í eigu Sigtryggs sem hefur bætt við það á síðustu árum. Hefur það hlotið gullverðlaun á ýmsum frímerkjasýningum í gegnum árin

Hver og einn finnur sína hillu í frímerkjasöfnun og efni sem honum finnst áhugavert. „Mér finnst gaman að safna frímerkjum og öðru slíku tengdu lýðveldisstofnuninni 1944, bæði umslögum með stimpluðum frímerkjum og öðru skyldu efni. Þetta er efni sem hefur boðið upp á marga möguleika,“ segir Sigtryggur. Hann hefur safnað frímerkjum síðan á unglingsárum og á glæsilegt safn.

530 söfn og fulltrúar 70 þjóða

„Íslendingar hafa ekki áður tekið þátt í heimssýningu í Suður-Kóreu, en að þessu sinni voru fulltrúar alls um 70 þjóða og um 530 söfn á Philakorea þar í landi,“ segir Sigtryggur.

Næsta alþjóðlega sýning FIP verður í London á næsta ári og 2016 í New York. „Þeir sem stýra heimssýningunum eins og þeirri sem var í Suður-Kóreu setja ýmis skilyrði samkvæmt einskonar punktakerfi, svo þarna er ekki auðhlaupið inn. Því getum við Íslendingar verið ánægðir með hvernig til tókst að þessu sinni.“

Keppni og hagnýtt áhugamál

Sú var tíðin að frímerkjasöfnun var vinsælt tómstundagaman barna og unglinga. Áhuginn er minni í dag og segir Sigtryggur það væntanlega helgast af því að ungu fólki bjóðist nú margvísleg önnur dægradvöl sem heilli meira. Frá fyrri tíð eru þó til margar sögur um frímerkjasöfnun, þar sem sumir bókstaflega kepptu sín í millum um eftirsótt merki, verðmæt og svo framvegis. Gjarnan var þetta starf undir handleiðslu kennara eða þá skipulagt með öðru móti.

„Þetta var hagnýtt áhugamál hér í gamla daga. Þeir sem höfðu safnað frímerkjum gátu til dæmis notað þau sem einskonar skiptimynt við gjaldeyriskaup þegar farið var utan. Margar sögur um slíkt eru til. En með frímerkjasöfnun fylgir fræðsla um ýmislegt áhugavert efni og það er synd ef frímerkjasöfnun dettur upp fyrir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert