Enn byggt á sandi þrátt fyrir hættur

AFP

Allt frá upphafi 10. áratugar síðustu aldar hafa vísindamenn varað við því að yfirborð sjávar fari hækkandi með tilheyrandi hættu fyrir mannslíf og eignir. Sú staðreynd hefur aðeins orðið skýrari á þeim tíma sem síðan er liðinn og þekkja íbúar á strandsvæðum víða um heim áhrif þess af eigin raun. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafa milljónir húsa verið reistar við strandlengju Bandaríkjanna á þessum tíma án þess að yfirvöld reyni að sporna við því.

Yfirborð sjávar rís meðal annars vegna þeirra loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað á jörðinni. Landsig spilar einnig víða inn í en olíu- og vatnsvinnsla flýtir fyrir því. Hærri sjávarstaða eykur áhrif óveðra og venjulegra flóða með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Fjölgað um 3,7 milljónir

„Á sandi byggði heimskur maður hús,“ segir í þekktu barnalagi en á þau orð hefur ekki verið hlýtt í ríkjum eins og Flórída. Þar er lengsta strandlengjan af öllum ríkjum Bandaríkjanna utan Havaí og Alaska. Ríkið er láglent og er þegar byrjað að finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinganna. Hvergi ganga fleiri fellibylir á land í Bandaríkjunum en í Flórída.

Þrátt fyrir þá staðreynd að sjórinn étur í sífellu upp strendur Flórída hefur íbúum við ströndina fjölgað þar úr 1,1 milljón í 4,8 milljónir frá 1990. Þá er ekki talinn með sá fjöldi fólks sem býr í ríkinu hluta ársins.

Samkvæmt úttekt Reuters-fréttastofunnar hefur aðeins litlum hluta umsókna um byggingar- og framkvæmdaleyfi á lóðum við sjóinn verið hafnað á undanförnum árum. Engu að síður er nærri því helmingur strandlengjunnar þar talinn „eyðast hættulega mikið“.

Aðeins dropi í hafið

Vandamálið er ekki aðeins bundið við Flórída. Í úttekt Reuters kemur fram að mun algengara er að sjávarstaða fari að eða yfir flóðamörk en áður, nær hvert sem er litið. Þó að flóðin séu ekki öll stór hlýst verulegur kostnaður af truflunum á rekstri fyrirtækja, endurteknum viðgerðum og varnaraðgerðum.

Hluti af vandamálinu er að stjórnvöld gera lítið til að letja verktaka til að byggja á strandlengjunni. Þeir styrkir sem staðaryfirvöld geta sótt um til að hafa umsjón með strandsvæðum eru aðeins dropi í hafið miðað við þá fjárhagshvata sem ýta undir áframhaldandi framkvæmdir.

Alríkisstjórnin veitir milljörðum dollara í niðurgreiðslur á flóðatryggingum heimila á hættusvæðum, verkefni til að vernda strendurnar og neyðaraðstoð vegna náttúruhamfara á borð við fellibyli. Frá 1990 hefur um sjö milljörðum dollara af opinberu fé verið varið í að flytja sand í strendur sem sjórinn eyðir. Það er aðeins plástur á sárið því þeim sandi skolar burt jafnhratt og þeim sem fyrir var.

„Fólk sem hefur fjárfest í þessum samfélögum veit hvað fellibylir geta gert og þeir sem stjórna vita að hætturnar hafa aukist með tímanum. Þetta er ekki vandamál um fræðslu. Þetta er vandamál um fjárhagslega hvata frá alríkisstjórninni. Þetta er fjárhagslegt vandamál,“ segir Rob Young, strandjarðfræðingur við Cullowhee-háskóla í Norður-Karólínu.

Vilja losna af svörtum lista

Bandarísk lög banna alríkisstjórninni að veita fé til trygginga eða verndar fyrir tiltekin svæði strandlengjunnar sem eru í mestri hættu. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að fá svæði af þessum svarta lista stjórnvalda.

Á San Blas-höfða og St. Joseph-skaga í Flórída þar sem landeyðing er hvað hröðust hefur ríkið og sýslan veitt um 2,5 milljarða króna í að bæta sandi við ströndina. Meirihluta hans blés hins vegar burt í fellibyl áður en verkefninu lauk. Nú reyna íbúar og sveitarstjórnarmenn að fá svæðið af lista stjórnvalda svo þeir geti sótt um styrki frá alríkisstjórninni til uppbyggingar stranda og neyðarastoð vegna náttúruhamfara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert