Fólk fái áfengið heim að dyrum

Starfsmenn fyrirtækisins munu kaupa áfengið og keyra upp að dyrum …
Starfsmenn fyrirtækisins munu kaupa áfengið og keyra upp að dyrum viðskiptavina.

„Hugmyndin er búin að vera lengi í vinnslu en svo fékk ég mér rauðvínsglas og ákvað að setja upp heimasíðu þar sem ég vildi kynna þessa hugmynd. Ég hef fengið nokkuð góð viðbrögð við þessu eftir að ég setti upp auglýsingu á Facebook fyrir helgi,“ segir Daníel Frímannsson sem hyggst setja á fót fyrirtæki sem fer í áfengisverslanir ríkisins fyrir fólk og keyrir veigarnar heim að dyrum. 

Daníel er 33 ára efnafræðingur sem starfar sem vísindamaður í Stanford. Að sögn hans er hugmyndin skammt á veg komin og enn á eftir að stofna fyrirtæki um hana.

Ekki á bíl eða fastur í vinnu 

Á heimasíðunni sem ber nafnið Über ölles er hægt að skrá sig í hóp þeirra sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna en að sögn Daníels er hugmyndin er að búa til app þar sem fólk getur pantað sér þjónustuna. Hann lítur á heimasíðuna sem eins konar markaðsrannsókn og viðbrögðin hafa verið mjög góð en hann hóf að auglýsa á Facebook í síðustu viku. 

„Opnunartíminn í ríkinu hentar þér kannski ekki af einhverjum ástæðum og þú getur fengið þetta sent heim ef þú ert t.a.m. ekki á bíl eða ert fastur í vinnu,“ segir Daníel. 

 „Ég býst við því að það sé markaður fyrir þetta. Þetta er önnur lausn en að fara með áfengi í verslanir. Þetta eykur aðgengi með því að búa til annan markað sem snýr að flutningum á vörunni,“ segir Daníel. 

Vill samt fá áfengið í verslanir 

Hann segist engu að síður vonast eftir því að að frumvarp um að verslunum verði leyft að selja áfengi verði samþykkt. „Íslendingar eru hins vegar ekkert með skilvirkasta þingið og ég á eftir að sjá þetta samþykkt þar. En ég vona það að sjálfsögðu eins og aðrir. En ég ætla ekki að bíða eftir því að þetta verði tekið fyrir heldur halda áfram með þessa hugmynd óháð því,“ segir Daníel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert