„Stundum var allt í lagi, stundum var allt í steik

Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður.
Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Síðustu fjórtán ár hef ég gert átta heimildarmyndir og flestar hef ég fjármagnað með eigin peningum. Þetta eru allt sögur sem ég hef á einn eða annan hátt kveikt á og langað að segja. Ég finn að þessi síðasta mynd er ákveðinn endapunktur á því tímabili. Það sem mig langar að gera núna eru verkefni sem taka styttri tíma í framleiðslu en hefðbundnar heimildarmyndir gera,“ segir Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður en í síðustu viku var mynd hans Ó, borg mín borg, Chicago frumsýnd á RÚV.

Þorsteinn hefur starfað í meira en 30 ár í fjölmiðlum og við kvikmyndagerð og er jafnan með mörg járn í eldinum. Á næstum vikum kemur bók um Vatnsdalsá út sem Þorsteinn vann í samstarfi við Einar Fal Ingólfsson, ljósmyndara og blaðamann, og Sigurð Árna Sigurðsson myndlistarmann, þá vinnur hann að útvarpsþáttum fyrir Rás 1 sem útvarpað verður í vetur og kallast Smásögur og hann vinnur að sjónvarpsmynd um Sigurð Helgason, yfirmatreiðslumann á Grillinu og er þá ekki allt upptalið.

Í viðtali sem birtist um helgina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræðir hann líf og störf og þá sýn hans að nýta þurfa þann tíma vel sem gefst í lífinu.

Sjálfur horfði Þorsteinn upp á móður sína fara illa með sín tækifæri en hún var einstæð með tvö börn og veikur alkóhólisti. Föður sinn, Vilhjálm H. Vilhjálmsson stórkaupmann, þekkti Þorsteinn ekki sem barn og var faðir hans honum næstum enn sem ókunnugur þegar hann féll frá. Hálfsystkinum sínum kynntist hann vel þegar hann var orðinn unglingur og er kært þeirra á milli og hálfbróðir hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, er til dæmis einn hans besti vinur.

„Stundum var allt í lagi, stundum var allt í steik vikum saman og þá vorum við systkinin að mestu leyti sjálfbjarga. Ég veit að þess vegna varð ég snemma mjög sjálfstæður og lærði að sjá um mig; keypti í matinn, eldaði og gerði allt það sem þurfti að gera. Það er svo merkilegt að börn finna bara einhvern veginn út úr þessu og sem betur fer átti ég tvíburasystur mína að,“ segir Þorsteinn um uppvöxt sinn í viðtalinu.

Rætt er við Þorstein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Rætt er við Þorstein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert