Umboðsmaður í vanda vegna fjölgunar mála

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Undanfarin ár hefur umboðsmaður Alþingis glímt við töluverðan vanda vegna fjölgunar mála sem hefur einkum birst í lengri afgreiðslutíma í flóknari málum. Í fyrra hlutu 543 mál lokaafgreiðslu hjá embættinu. Það er mesti fjöldi afgreiddra mála hjá embættinu á einu ári til þessa. 

Þetta kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2013, sem hefur verið birt á heimasíðu embættisins.

Fram kemur, að á árinu árinu 2013 hafi verið skráð 494 ný mál. Af þessum 494 málum tók umboðsmaður aðeins eitt mál til athugunar að eigin frumkvæði. Ástæður þess hafi verið þær ráðstafanir sem þurft hafi að gera til að stytta afgreiðslutíma mála hjá embættinu. 

Mesti fjöldi afgreiddra mála á einu ári

Þá segir, að alls hafi 543 mál hlotið lokaafgreiðslu hjá umboðsmanni Alþingis á síðasta ári.

„Það er mesti fjöldi afgreiddra mála hjá embættinu á einu ári til þessa. Þetta er fjórða árið í röð sem afgreidd eru fleiri mál en áður og jafnframt fyrsta árið þar sem afgreidd eru fleiri mál en berast. Alls voru 142 mál  óafgreidd í árslok sem þýðir að þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í því skyni að ljúka afgreiðslu eldri mála hafa borið nokkurn árangur. Í því sambandi nefni ég að á árinu 2012 voru afgreidd 502 mál og mál til meðferðar við lok þess árs voru 191. Af þeim 142 málum sem voru óafgreidd í árslok 2013 var í 32 tilvikum beðið eftir skýringum og upplýsingum frá stjórnvöldum, í 16 málum var beðið eftir athugasemdum frá þeim sem borið höfðu fram kvörtun, 21 mál voru til frumathugunar og 73 mál voru til athugunar hjá umboðsmanni að fengnum skýringum viðkomandi stjórnvalda. Þar af voru 15 mál sem umboðsmaður hafði tekið til athugunar að eigin frumkvæði á árinu 2013 eða fyrr,“ segir í skýrslunni.

Mál vegna kvartana verði afgreidd innan sex mánaða

Þá kemur fram, að hjá umboðsmanni Alþingis hafi verið stefnt að því að mál vegna kvartana verði almennt afgreidd innan sex mánaða frá því að öll gögn og skýringar hafa borist. Af þeim 73 málum sem voru til athugunar að fengnum skýringum stjórnvalda voru í árslok 2013 enn til meðferðar 27 mál sem voru komin á það stig fyrir 1. júlí 2013. Þar af voru 15 frumkvæðismál. Hinn 1. ágúst 2014 var tólf af þessum 27 málum lokið en 15 biðu endanlegrar afgreiðslu. Tólf þessara mála voru frumkvæðismál og tvö mál voru vegna kvartana sem tengjast frumkvæðisathugunum.

„Eins og ég hef fjallað um í skýrslum mínum til Alþingis undanfarin ár hefur embættið glímt við talsverðan vanda vegna fjölgunar mála sem hefur einkum birst í lengri afgreiðslutíma í flóknari málum, þ.e. málum sem er lokið með áliti eða þarf að taka að öðru leyti til ítarlegri athugunar en ella. Á árinu 2013 fækkaði kvörtunum nokkuð eða um 8% en þegar þetta er ritað er fjöldi kvartana á árinu 2014 áþekkur og á sama tíma og í fyrra,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, í skýrslunni.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert