Strætó afþakkar tekjur af auglýsingum

Auglýsingar á strætisvögnum eru liðin tíð. Strætó bs. fékk á sínum tíma milljón á mánuði í tekjur vegna auglýsinga á strætisvögnum. Framkvæmdastjóri AFA JCDecaux, sem sér um auglýsingar á strætóskýlum, segir mikinn áhuga hjá auglýsendum að auglýsa á strætó. Svo virðist sem enginn áhugi sé á að ná í þessar tekjur. Talsmaður Strætó segir auglýsingasöluna ekki hafa borgað sig.

Á árunum 2001-2008 voru strætisvagnar merktir auglýsingum algeng sjón. Jafnvel gerðist það að fyrirtæki keyptu auglýsingapláss á heilum vagni. Þetta heyrir sögunni til því Strætó bs. hefur horfið af auglýsingamarkaði. Ekki er lengur hægt að fá keypta auglýsingu á strætisvagni heldur fer skiltaplássið undir auglýsingar frá Strætó bs. Meðan samningur var í gildi um sölu auglýsinga á vögnunum skilaði hann Strætó bs., sem er í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, um einni milljón króna á mánuði í tekjur.

„Strætó var með samning við fyrirtækið AFA JCDecaux um auglýsingar á vögnunum. Tekjur Strætó vegna samningsins voru ein milljón króna á mánuði. Hinsvegar fór öll vinnan fram hjá okkur og á ábyrgð Strætó og á okkar kostnað. Sé það metið inn var ekki nema helmingur upphæðarinnar rauntekjur,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó, í svari við fyrirspurn blaðamanns um hvers vegna Strætó bs. aflar sér ekki lengur tekna með auglýsingasölu.

Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður stjórnar Strætó bs., segir auglýsingasölu á vögnum ekki hafa verið sérstaklega rædda í nýrri stjórn Strætó bs. Ljóst sé þó að ef Strætó nýtti ekki auglýsingaplássið á vögnunum fyrir auglýsingar sem hvort sem er þyrfti að kaupa myndi koma til kostnaður annars staðar.

„Hálf milljón á mánuði eru ekki miklir peningar í þessu samhengi. Ef Strætó bs. ætti að auglýsa sig á almennum miðlum þá myndi þessi hálfa milljón hrökkva skammt. Strætó telur sig fá mikið fyrir peninginn með því að auglýsa eingöngu á eigin vögnum,“ segir Kristín Soffía og bendir á að notendum Strætó hafi fjölgað um þriðjung á síðustu fjórum árum.

Að sögn Kolbeins keypti Strætó bs. auk þess pláss á eigin vögnum fyrir sínar auglýsingar af AFA JCDecaux á sínum tíma fyrir hærri upphæð árlega en sem nam þeim 12 milljónum króna sem fengust í tekjur.

„Þegar kreppan skall á 2008 óskaði AFA JCDecaux eftir því að fá 50% afslátt frá samningnum. Því var hafnað og stjórn Strætó ákvað að nýta auglýsingaplássið fyrir auglýsingar Strætó.

Í þessu samhengi voru einnig uppi spurningar um samkeppnissjónarmið, þ.e. hvort Strætó ætti að vera í samkeppni við aðra um auglýsingapláss,“ segir Kolbeinn.

Að sögn Bryndísar Haraldsdóttur, formanns stjórnar Strætó bs., er almenn sátt með það fyrirkomulag að Strætó bs. auglýsi eigin þjónustu á auglýsingarými strætisvagna í stað þess að auglýsingar séu seldar eins og áður var gert. „Við myndum gjarnan vilja hafa úr meiri fjármunum að spila til að markaðssetja þjónustu Strætó. En þar sem mjög lítið fjármagn er fyrir auglýsingakaup höfum við talið að hagkvæmasta leiðin fyrir Strætó sé að auglýsa sig með þessum hætti. Þetta er góð leið til að koma skilaboðum á framfæri. “

Auglýsendur hafa reglulega samband við AFA JCDecaux til að spyrja um auglýsingar á strætó, en fyrirtækið sér um rekstur og auglýsingasölu á strætóskýlum og var áður með samning við Strætó bs. um sölu auglýsinga á hliðum strætisvagna.

„Strætó bs. er eina strætófyrirtækið sem ég þekki til í Evrópu sem ekki selur auglýsingar á strætó. Þó hefur það verið þannig að verðgildi auglýsinga hér er hærra en víða annars staðar. Það er skrýtið að eigendur geri ekki kröfu um að fyrirtækið afli allra þeirra tekna sem það hefur möguleika á,“ segir Einar.

Svo virðist sem lítill áhugi hafi verið hjá Strætó á að endurnýja samning um auglýsingar á vögnunum. „Ég skil ekki þessa afstöðu. Það er augljóslega eftirspurn eftir þessum auglýsingum því við fáum að minnsta kosti vikulega símtöl þar sem spurt er um auglýsingar á strætisvagna.“

AFA JCDecaux á og rekur 230 strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu og selur auglýsingar á skýlin með samningi við Reykjavíkurborg. Einar segir tekjur allra sem selja auglýsingar hafa hrunið 2008, en nú sé allt önnur staða. „Við erum komin aftur í svipaða veltu og var árið 2006.“

Miðað við fjölda strætisvagna í notkun á höfuðborgarsvæðinu ætti velta auglýsinga á vögnunum að geta numið um 40-45 milljónum króna árlega. Þar af myndu beinar tekjur Strætó bs. geta numið um 14 milljónum króna árlega að mati Einars.

Á árunum 2001-2008 var fyrirtækið með samning við Strætó bs. um sölu auglýsinga á sjálfum strætisvögnunum. Þegar hrunið varð 2008 breyttust forsendur og Strætó endurnýjaði ekki samninginn. Að sögn Einars hefur þó alltaf verið markaður fyrir auglýsingar á strætisvögnum og AFA JCDecaux bauð Strætó aftur samning um auglýsingar á vögnum árið 2009. „Þá var hugmyndin að gera langtímasamning, til 10 ára, sem hefði fært Strætó tekjur upp á 70-100 milljónir króna. Það virtist bara enginn áhugi á því.

En ég tek fram að það er ekkert sem segir að við ættum að fá þetta verkefni að selja auglýsingar á strætisvagna. Svona á bara að fara í útboð,“ segir Einar.

Sjá nánar um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is/Styrmir Kári
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert