Andlát: Guðmundur Rósenkranz Einarsson tónlistarmaður

Guðmundur Rósenkranz Einarsson.
Guðmundur Rósenkranz Einarsson.

Guðmundur Rósenkranz Einarsson tónlistarmaður er látinn, 88 ára að aldri. Guðmundur fæddist í Grjótaþorpinu í Reykjavík 26. nóvember 1925.

Hann var sonur hjónanna Ingveldar J.R. Björnsdóttur, húsfreyju og kjólameistara, og Einars Jórmanns Jónssonar, hárskera og tónlistarmanns. Systkinin voru þrjú talsins; Björn, Elín Hulda og Guðmundur.

Guðmundur kvæntist Höllu Kristinsdóttur árið 1949. Sama ár fæddist frumburðurinn, Matthildur, en síðar bættist í hópinn Elín Birna, 1952, og Trausti Þór, 1953. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin þrjú.

Fyrstu sögur af tónlistarferli Guðmundar má rekja til dansleikja hjá Sunddeild Ármanns, þar sem Guðmundur lék á trommur. Það má segja að það hafi verið upphafið að nútímatrommuleik á Íslandi. Guðmundur er hvað þekktastur fyrir trommuleik sinn í ótal hljómsveitum hér á landi. Hann var fjölhæfur tónlistarmaður, var talinn prýðilegur básúnuleikari en hann lék á það hljóðfæri með Sinfóníuhljómsveit Íslands í hátt á þriðja áratug. Auk þess spilaði Guðmundur á klarinett, flautu og píanó.

Hin seinni ár spilaði hann djass út um allan heim með Tríói Ólafs Stephensen þar sem var auk Ólafs og Guðmundar Tómas R. Einarsson. Þá hlaut Guðmundur margar viðurkenningar á sviði íþrótta og tónlistar.

Guðmundi var margt til lista lagt, meðal annars lagði hann stund á listmálun og ljósmyndun, þar sem hann tók myndirnar og framkallaði þær sjálfur og lék sér með útkomuna. Hann kenndi um tíma börnum í Ölduselsskóla í Reykjavík ljósmyndun og tónlist. Guðmundur var fjölhæfur í íþróttum, stundaði sund, hjólreiðar, skíði, skauta, golf og hestamennsku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert