Ekki eitt af betri sumrunum

Við Ytri-Rangá.
Við Ytri-Rangá. Einar Falur

„Þetta var hörkufín vika,“ segir Jóhannes Hinriksson, staðarhaldari við Ytri-Rangá, en áin er komin á toppinn yfir aflahæstu laxveiðiárnar. 380 laxar veiddust í vikunni.

„Föstudaginn fyrir viku veiddist mjög vel, yfir 70 laxar á flugu. Þar á meðal voru mjög vanir veiðimenn með tvær stangir og þeir fengu 38 laxa. Þeir voru í moki og stunduðu veiðina líka stíft.

Á sunnudaginn var byrjað að veiða með blönduðu agni og það gaf vel. Fyrstu tvær vaktirnar gáfu 102 laxa, á miðvikudag veiddust síðan 48 og 26 á fimmtudag, það er góð veiði. Þetta fæst á góða blöndu af maðki, spún og flugu,“ segir Jóhannes. Hann bætir við að ekki veiðist lengur nýrenningar en inn á milli séu „nýlegir fiskar í bland við eldgamla svarta“.

Þá veiðist enn talsvert af stórlaxi. Ekki er enn búið að taka saman hve hátt hlutfallið af stórlaxi er í sumar en það er óvenjuhátt, eins og annars staðar í laxveiðiám landsins. „Stórlaxinn hélt veiðinni uppi framan af en svo kom smálaxinn, sem betur fer. Við fengum ekki mikið af mjög litlum laxi, einhverja sem voru 1,1 til 1,2 kíló, en annars var smálaxinn venjulegur.“

Þegar Jóhannes er spurður hvort hann sé reiðubúinn að spá í veiðina næsta sumar segist hann viss um að hún verði miklu betri en nú. „Það var hlýrra vor en í fyrra og við sjáum betur en víðast hvar að seiðin gengu betur út en í fyrra. Vitaskuld er alltaf óvissa hvernig laxinum reiðir af í hafinu en ég er jákvæður,“ segir hann. Veitt er í Ytri-Rangá til 19. október.

Jákvæðari tónn

Laxveiðinni lýkur þessa dagana í hverri ánni á fætur annarri, en lengst er veitt í þeim sem voru opnaðar síðast, fyrir norðan, og í hafbeitaránum. Norðurá er ein ánna þar sem veiðimenn hafa tekið síðustu köstin í ár. Þar voru 924 laxar færðir til bókar og telst lélegt en meðalveiði í ánni er 1.570 laxar.

„Þetta var svo sannarlega ekki eitt af betri sumrunum í Norðurá,“ segir Einar Sigfússon, sölustjóri árinnar. „Það vantaði smálaxa. Hins vegar var mikið af stórlaxi og ég velti fyrir mér hvort það sé að skila sér á Vesturlandi að sleppingar á stórlaxi hafa aukist. Stórlaxinn bjargaði því sem bjargað varð.“

Einar vonast eftir góðu sumri næst og vísar einnig til þess hvað síðasta vor var gott, og þá hagstætt seiðunum er þau gengu út. „Maður verður alltaf að hafa trú!“ segir hann og brosir. „En það veit enginn hvað gerist hjá seiðunum, litlir peningar eru settir í þessar rannsóknir og vísindi.“

Einar tók við sölu leyfa í Norðurá nú fyrir sumarið, í samstarfi við veiðifélagið, eftir að Stangaveiðifélag Reykjavíkur hætti að leigja veiðiréttinn, og segir hann reksturinn hafa gengið vel. „Það vantaði vissulega meira af laxi en veiðimenn skiluðu sér í hús og það var ánægja með allan aðbúnað.“

Eru veiðileyfasalar áhyggjufullir eftir lélegt veiðisumar?

„Jú, ekki er hægt að neita því,“ segir Einar. „Samt sem áður finnst mér mun jákvæðari tónn í mönnum nú en eftir sumarið 2012. Sala leyfa er hafin, undirtektir eru ágætar og mikið um fyrirspurnir að utan.“

Einar er annar eigenda Haffjarðarár og veiði lauk einnig þar í vikunni.

„Við enduðum í 821 laxi og erum ánægð með það, miðað við allt og allt,“ segir hann en síðustu ár hafa veiðst á bilinu 1.500 til 2.000 laxar á sumri. Meðal síðustu laxanna sem veiddust nú var 105 cm hængur sem Anna Kristín Sigþórsdóttir, eiginkona Einars, landaði og var það stærsti lax sumarsins í ánni, „svaka fiskur, rosalega sver“, segir Einar. „Við vorum áður búin að fá 103 og 102 cm laxa en þessi tók við gaflinn á veiðihúsinu og leiddi Önnu niður fyrir brú. Það var skemmtilegt. Það var hjá okkur eins og víða á Vesturlandi mikið af stórum löxum í sumar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert