Hljóp án hvíldar í 34 tíma

Sigurður í Jungfrau-maraþoninu í svissnesku Ölpunum.
Sigurður í Jungfrau-maraþoninu í svissnesku Ölpunum.

„Ég er ekki mikill götu- eða maraþonhlaupari og hafði til að mynda aldrei hlaupið maraþon áður en þetta hljómaði spennandi þannig ég ákvað að slá til,“ segir Sigurður Hrafn Kiernan, en hann tók þátt í Jungfrau-maraþoninu í svissnesku Ölpunum síðustu helgi. Hlaupið hefur verið kosið fallegasta hlaup í heimi í mörg ár og segir Sigurður vera sammála þeim dómi. „Ég hafði heyrt mikið um þetta hlaup og fegurð þess undanfarin ár. Félagi minn býr í Sviss og hafði samband við mig og bauð mér að koma í heimsókn. Ég ákvað þá að nota tímann og fara í hlaupið í leiðinni.“

Sigurður segir að hlaupið hafi gengið vonum framar en hann hljóp á tímanum 4:31. „Ég var ekki með neinar væntingar, ætlaði bara að fara rólega og njóta þess að vera í náttúrunni. En svo þegar hlaupið byrjaði myndaðist einhver metnaður og ég fór að gefa miklu hraðar í en ég ætlaði mér.“

Hæðin minnsta málið

Um 5000 manns tóku þátt í maraþoninu en Sigurður hafnaði í 454 sæti. Maraþonið hefst í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli og smám saman er klifið upp. Sigurður segir hæðina ekki hafa verið vandamál fyrir hann. „Ég hleyp oftar svona hæðarhlaup heldur en götuhlaup þannig það var minnsta málið. Fyrstu 20 kílómetrarnir eru nánast á jafnsléttu en seinni helmingurinn er brattari uppganga upp fjöllin. Ég fann ekkert fyrir hæðinni en ég hafði verið í Ölpunum í tíu daga stuttu áður og var búin að venjast þessu,“ segir Sigurður en tveimur vikum áður en hann tók þátt í Jungfrau-maraþoninu tók hann þátt í hlaupinu Ultra Trail Mont Blanc, eða UTMB, sem er eitt frægasta utanvegahlaup í heimi. Þá er hlaupið umhverfis fjallið Mont Blanc. Það hlaup er 168 kílómetrar og var Sigurður í um 34 tíma að klára hlaupið. 

„Það hlaup náði alveg upp í 3000 metra hæð þannig ég var orðinn vel vanur hæðinni síðustu helgi,“ segir Sigurður. „Maður fer mun hægar í hlaupi eins og þessu. Ég hljóp í rúma 34 tíma, þar á meðal í tvær nætur. Þá byrjar maður rólega til þess að endast allt hlaupið.“

Aðspurður um muninn á aðstæðum í hlaupinu um Mont Blanc og Jungfrau-maraþoninu segir Sigurður hlaupin tvö sambærileg að hluta til. „Seinni hluti Jungfrau er sambærilegur Mont Blanc. Maður er að hlaupa upp fjall og þarf að vera svolítið tæknilegur að því leytinu til að það er hlaupið á skógarstígur og í fjöllum. Hins vegar er fyrri hluti maraþonsins mjög hraður, enda er hlaupið á malbikuðum götum.“

Aðspurður segir Sigurður góða aðstöðu vera fyrir hlaupara í Mont Blanc hlaupinu. „Það er boðið upp á svefnaðstöðu, nudd og sjúkratjöld á leiðinni en maður notfærir sér ekki þjónustuna nema það sé eitthvað. Það kom ekkert fyrir hjá mér þannig að ég hélt áfram allan tímann. Maður stoppaði aldrei, nema rétt til að skella í sig súpu og halda svo áfram.“

Alltaf gaman að koma í mark

Sigurður segir það hafa verið góða tilfinningu að klára hlaupið eftir 34 tíma. „Það er alltaf gaman að koma í mark. Þetta er erfitt og þetta tekur á, sérstaklega seinni nóttina. Þá verður maður mjög þreyttur og stundum milli svefns og vöku og ekki endilega skýr í kollinum,“ segir Sigurður en telur þó að þetta hafi gengið vel á heildina litið. „Auðvitað koma tímar þar sem maður fer að velta fyrir sér hvað maður sé nú að gera en mér leið rosalega vel í lokin, og tók lokasprett niður síðasta fjallið í mark.“

Þetta er í þriðja skiptið sem Sigurður tekur þátt í UTMB, en í fyrsta sinn sem hann hleypur alla 168 kílómetrana. „Í hin tvö skiptin, 2010 og 2012 styttu þeir hlaupið útaf veðri. Það var ofsaveður, rigning snjókoma slydda og mikil þoka þannig að þau hlaup voru ekki nema um 100 kílómetrar og minna mál í kjölfarið,“ segir Sigurður. „Maður er vanur svona veðri frá Íslandi og það skiptir ekki svo miklu máli fyrir okkur Íslendingana. En það er skemmtilegra að hlaupa í þannig veðri þar sem maður hefur útsýni.“

Mont Blanc tæknilegra hlaup en Mount Fuji

Það vakti athygli í vor þegar Sigurður, ásamt þremur öðrum Íslendingum tók þátt í systurhlaupi UTMB í Japan. Þá var hlaupið í kringum fjallið Fuji. „Það er rosa gaman að hafa klárað bæði. Það er erfitt að komast inn, maður sækir um og þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og safna punktum úr öðrum hlaupum þannig það er svolítið mikið apparat að klára þetta,“ segir Sigurður sem segir hlaupið í Japan sambærilegt hlaupinu við Mont Blanc. „Það er jafn langt og jafn mikil hækkun. Hins vegar er hlaupið við Mont Blanc grýttara og tæknilegra. Mount Fuji er ekki svo langt frá sjónum og maður er meira við sjávarmál. Þar er heldur ekki eins grýtt heldur meira um skógarstíga sem fara betur með mann. Það er auðveldara en ekkert síður skemmtilegra,“ segir Sigurður.

Aðspurður um næstu hlaup á dagskrá segir Sigurður lítið vitað í þeim málum. „Það er ekkert planað en það getur vel verið að ég fari í eitthvað hlaup í desember. Á þessum tíma fer maður yfirleitt að hugsa um næsta ár og ég stefni reyndar að því að fara aftur til Japan í vor. En það er ekkert ákveðið.“

Tilþrif í fjallinu.
Tilþrif í fjallinu.
Sigurður, eftir að hafa hlaupið 168 kílómetra á 34 tímum.
Sigurður, eftir að hafa hlaupið 168 kílómetra á 34 tímum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert