Líkur á gosi undir jökli

Hraunið sem kemur frá eldsprungunni er nánast búið að ýta …
Hraunið sem kemur frá eldsprungunni er nánast búið að ýta Jökulsá á Fjöllum úr farvegi sínum. Ragnar Axelsson

„Líkurnar eru meiri en minni að gosið fari í jökulinn, það er allt í gangi undir honum. Við erum kannski að tala um 51% líkur á móti 49%“, segir eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson en hann hélt erindi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Vopnafirði í gær þar sem farið var yfir stöðu eldgossins í Holuhrauni.

„Fólk getur reiknað með því að það hlaupi í jökulinn og það verði flóð. Það verður að vera tilbúið, ekki láta það koma sér á óvart ef til þess kemur. Við höfum fengið tvö gos á síðustu árum, 2010 og 2011, þar sem menn voru auk þess í miklum vandræðum sökum ösku. Það þarf ekkert stórt gos til að slíkt verði. Menn verða að vera á tánum,“ segir hann og leggur áherslu á að Austfirðingar lesi viðbragðsáætlanir Almannavarna.

2,5 milljón tonn af brennisteini

Mengun frá gosinu í Holuhrauni hefur vakið áhyggjur hjá mörgum Austfirðingum enda berst gasið víða.

„Það eru einhverjar 2,5 milljónir tonna af brennisteini sem losnað hafa út í andrúmsloftið, það gerir í kringum tuttugu þúsund tonn á dag,“ segir Ármann og endurtekur að fólk megi ekki láta það koma sér á óvart ef slíkt færist í aukana eða ef öskufall eða flóð verði á næstunni.

„Það stendur allt í viðbrögðum Almannavarna hvernig fólk skal bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Ég er ekki að segja að Austfirðingar séu ekki viðbúnir, ég er einfaldlega bara að brýna fyrir þeim að vera á tánum. Það má ekki líta á þetta sem eitthvað gos uppi á fjöllum sem ekki stafi nein hætta af,“ segir hann og endurtekur að Ísland búi yfir öflugum almannavörnum og þeim beri að treysta. 

Getur staðið yfir í nokkur ár

„Það voru kosningar á Austurlandi fyrir skemmstu og töluverð umskipti á fulltrúum í sveitar- og bæjarstjórnum. Hluti af þessu fólki situr í almannavarnarnefndum og hluti af því er nýtt þar svo það verður að setjast niður og fara yfir þessar viðbragðsáætlanir,“ segir Ármann. 

„Við erum komin í gliðnunarhrinu og ég held að það sé alveg ljóst að það verður annað gos á sama svæði innan tíðar. Við erum til að mynda með Kröflu sem dæmi frá 1724 til 1729, Öskju 1875 og Kröflu frá 1975 til 1984 og þar fram eftir götum. Sagan endurtekur sig,“ segir Ármann að lokum. 

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert