„Nokkuð erfitt fyrir alla“

Hópurinn sem hlaut sveinsbréf í gær. Sergiy er þriðji frá …
Hópurinn sem hlaut sveinsbréf í gær. Sergiy er þriðji frá vinstri í annarri röð.

„Ég held að þetta sé bara nokkuð erfitt fyrir alla að ná sveinsprófinu, hvort sem þeir eru með fullt vald á tungumálinu eða ekki. Það er auðvitað aukaáskorun að hefja nám á tungumáli sem ekki er móðurmálið þitt en þetta gekk bara vel,“ segir Sergiy Dobrynin sem hlaut sveinsbréf í rafiðnaði í gær en afhending þeirra var við hátíðlega athöfn í húsnæði Rafiðnaðarskólans. Það voru sveina- og meistarafélög í rafiðnaði sem stóðu fyrir afhendingunni.

„Það er mjög gott fólk sem stóð að þessu sveinsprófi. Spurningarnar koma þó ekki alltaf beint, maður þarf fyrst að átta sig á því um hvað er verið að spyrja áður en það kemur að því hvort maður viti svarið eða ekki,“ segir hann.

Lögfræðingur og rafvirki

Sergiy, sem er frá borginni Kerch á Krímskaga, lærði bóklega hluta rafvirkjanámsins í sinni heimaborg en fór svo að læra lögfræði í Simferopol á Krím og útskrifaðist þaðan sem lögfræðingur árið 2003. Hann flutti hingað til lands árið 2006, þar sem móðir hans, Liliya Dobrynina, bjó í Hveragerði ásamt dóttir sinni Nínu Maríu, segir hann ýmislegt ólíkt þegar kemur að náminu.

„Þetta er ólíkt að vissu leyti. Ég held að það að læra rafvirkjun sé nokkuð svipað í flestum löndum en lögfræðinámið er mjög frábrugðið eftir því í hvaða landi þú ert,“ segir hann. Sergiy hefur unnið ýmisleg störf á síðustu árum og meðal annars unnið hjá S.S Verktökum sem byggingarverkamaður og Sólplasti ehf. í Sandgerði við að smíða og gera við fiskibáta. Sergiy segir það geta verið erfitt fyrir þá sem ekki hafa fullkomið vald á íslenskri tungu að fá vinnu en segist þó hafa mætt velvild hjá flesti fólki.

Sergiy varð Sverrir

Menntamálaráðuneytið á Íslandi samþykkti bóklega menntun Sergiy árið 2007 en með þeim skilyrðum að hann yrði að fara á samning í eitt ár áður en hann fengi að taka sveinspróf. Eins og áður segir fékk Sergiy sveinsprófið afhent við hátíðlega viðhöfn í gær en hann fékk íslenskan ríkisborgararétt síðastliðið vor. Við það tók hann upp nafnið Sverrir Sverrisson.

„Það er svolítið erfitt fyrir Íslendinga að skrifa nafnið mitt og bera það fram. Ég tók því upp nokkuð svipað íslenskt nafn þegar ég fékk ríkisborgararéttinn. Ég heiti Sergiy og faðir minn heitir líka Sergiy. Sverrir Sverrisson varð því fyrir valinu,“ segir hann. Spurður út í framtíðina segir hann meistaranám inni í myndinni. 

„Ég ætla að vinna sem rafvirki en stefni hugsanlega á meistarapróf. Það á eftir að koma í ljós,“ segir hann að lokum. 

Sergiy ásamt Nínu Maríu, systur sinni.
Sergiy ásamt Nínu Maríu, systur sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert