Veður að ganga niður

Áfram má búast við skúrum á vestanverðu landinu.
Áfram má búast við skúrum á vestanverðu landinu. Ómar Óskarsson

Veðurstofa Íslands hefur nú tekið út stormviðvörun sem gefin var út fyrr í dag, en búist var við stormi á Suðvestur- og Vesturlandi til kvölds. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu er veður að ganga niður og fer að lægja á næstu 2-3 klukkustundunum. Þá snýst í mjög hæga suðvestanátt með skúrum og að sögn veðurfræðings mun rofa til við það. 

Nokkuð bar á snörpum vindhviðum, þá sérstaklega við fjöll, á vestanverðu landinu í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var nokkrum sinnum kölluð út vegna hættu á þakplötufoki. Þá losnuðu þakplötur af nýbyggingum í borginni og þurfti lögregla að aðstoða svo ekki kæmi til hættu.

Að sögn veðurfræðings má ekki búast við stormi í vikunni, en þó er spáð strekkingsvindi á fimmtudag. Að öðru leyti verður veður skaplegt, en áfram má búast við suðvestanátt að mestu og skúrum af og til á vestanverðu landinu. Á Austurlandi verður veður þokkalegt að hans sögn, en þar getur fólk þó orðið vart við rykmistur frá gosstöðvunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert