Björgunarkerra á Héraði

„Hugmyndin kviknaði hjá Nikulási Bragasyni að útbúa kerru með búnaði sem hægt væri að nota í hópslysum,“ segir Steinunn Ingimarsdóttir, gjaldkeri hjá Björgunarsveitinni Héraði á Fljótsdalshéraði. Tveimur árum eftir að hugmyndin kviknaði er fullbúin björgunarkerra til taks á Egilsstöðum.

„Það hefur komið fyrir í útköllum að við hefðum þurft að vera með meiri búnað til taks,“ segir Steinunn. Í hverjum björgunarsveitarbíl er búnaður til að búa um sár og hlynna að allt að þremur einstaklingum. Björgunarkerran er viðbót við þann búnað sem er í bílunum. Steinunn bendir á að á síðustu tíu árum hafa orðið að minnsta kosti þrjú rútuslys. Í þeim tilvikum hefði björgunarkerra komið að góðum notum.

Kerran nýtist einnig í sjúkraflutningaútköllum

Árið 2012 var auglýst eftir umsóknum í styrktarsjóð ISAVIA sem úthlutaði til björgunarsveita í nágrenni flugvalla. Björgunarkerran hlaut hæsta styrkinn, 1,4 milljónir króna. Aðrir sem veittu styrki voru Dekkjahöllin, Landsvirkjun, Eimskip, Alcoa Fjarðaál, Donna og Brunavarnir á Héraði sem lögðu til húsnæði og efni í breytingar á kerrunni.

Kerran er einnig til taks fyrir sjúkraflutninga á svæðinu en hún er í sama húsnæði.

Nánast öll vinnan við smíði kerrunnar var í sjálfboðavinnu. „Við höfum unnið þetta smám saman, allt eftir fjármagni,“ segir Steinunn. Kostnaðurinn við kerruna hljóðaði upp á 6 milljónir króna.

Steinunn er sem fyrr segir gjaldkeri sveitarinnar, en hún hefur verið virk í starfinu í 18 ár. Hún segist ekki fara eins mikið í útköll og hún gerði á árum áður. Hún starfi meira innanhúss og bendir á að full not séu fyrir alla sem vilja starfa í björgunarsveitinni þótt þeir fari ekki endilega í útköll. Þeir vinni ekki síður mikilvæg störf inni í húsi eins og t.d. við fjáraflanir. Um 50 meðlimir eru skráðir í björgunarsveitina Hérað.

Á þeim árum sem hún hefur starfað nefnir hún tvennt sem hafi breyst mest á þessum árum. Bæði sveitin og almenningur hafi meiri búnað til umráða, en kostnaður sem fylgi rekstinum sé hærri. „Reksturinn er orðinn þyngri. Fyrstu árin stóð flugeldasalan undir kostnaði við sveitina. Nú þurfum við að fara í meiri fjáraflanir.“

Í auknum mæli er farið í útköll þar sem bílar eru sóttir inn á fjallvegi sem eru ófærir. Hún bendir á að aukinn kostnaður fylgi þeim ferðum.

„Ég er mjög ánægð með sveitina og ég tel okkur vinna mikið og gott starf,“ segir hún að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert