Fær ekki að reisa gestahús

Haustlitir á Þingvallavatni
Haustlitir á Þingvallavatni Ómar Óskarsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007, sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfesti, að því er varðar heimild fyrir byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð í Miðfellslandi við Þingvallavatn. Ekki fór fram grenndarkynning né var meðmæla Skipulagsstofnunar aflað og brast því lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis.

Eigandi sumarhúss sem stendur í næsta nágrenni við umrædda lóð kærði ákvörðun byggingafulltrúans og bar við að stækkun húsa eða nýbyggingar á svæðinu geti breytt ásýnd byggðar og haft veruleg áhrif á næstu lóðir. Taldi hann að byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og byggðaráð Bláskógabyggðar hefði brotið alvarlega á hagsmunum þeirra sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Grenndarréttur sé ótvíræður í frístundabyggð og sé ekki hægt að sættast á að lóðarhafi fái að reisa nýbyggingu sem rýri útsýni og ásýnd nágrannalóða verulega með mögulegri verðrýrnun á nærliggjandi frístundahúsum.

Unnið var við að reisa umdeilt gestahús frá lokum mars og fram í maí 2014. Ljóst er að fjarlægja þarf það sem þegar hefur verið reist enda féllst úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á rök kæranda í málinu og felldi úr gildi heimild fyrir byggingu gestahússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert