Haggall og njólubaugur á himni

Hér má sjá tvöfaldan regnboga sem varð á vegi blaðamanns …
Hér má sjá tvöfaldan regnboga sem varð á vegi blaðamanns mbl.is við Kringluna í morgun. mbl.is/Kjartan Kjartansson

Skúrum og rigningu fylgir gjarnan fallegur regnbogi. Tveir slíkir sáust á himni yfir Reykjavík í morgun. Ýmsar sögur eru tengdar boganum litríka og hefur hann til að mynda verið tákn hinsegin fólks. Í norrænni goðafræði var regnboginn brú ása af jörðu til himins og hét hann Bifröst.

Regnboga sjáum við þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman og þá er sá sem sér regnbogann oftast á svæði þar sem stytt hefur upp. Þegar horft er á regnbogann er sólin í bakið. Ef skúraveðrið skilar sér ekki getum við gengið að regnboganum vísum í fossúða í sólskini.

Regnboginn verður til við ljósbrot þegar sólargeisli brotnar við að fara inn í regndropa, speglast einu sinni á bakhlið dropans og brotnar svo aftur við að fara út úr honum.

Sjaldnar má sjá daufari regnboga með litina í öfugri röð, eða svokallaðan tvöfaldan regnboga. Litaröðin á efri boganum er öfug við þann neðri en efri boginn myndar tvöfalda speglun á bakhlið vatnsdropanna.

Haggall er regnbogastúfur á hafi, hrímbogi er regnbogi í éljagangi og lágum lofthita, jarðbogi er regnbogi sem nær báðum endum til jarðar, njólubaugur er regnbogi sem sést að nóttu til og regnband er bútur af regnboga.

Hér má lesa meira um regnboga og hvernig hann myndast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert