Líður betur eftir skuldaúrlausn

Umboðsmaður skuldara.
Umboðsmaður skuldara. Morgunblaðið/Eggert

Rúmlega helmingur þeirra sem tóku þátt í þjónustukönnun umboðsmanns skuldara segja líðan sína vera betri nú en áður en þeir leituðu til embættisins. Þá er um helmingur svarenda ánægður með þjónustuna sem þeir fengu og eru konur ánægðari en karlar. Nærri þrír af hverjum fjórum segja viðmót starfsfólks umboðsmanns skuldara almennt gott, þar af segja 44% að viðmótið sé mjög gott. Þetta kemur fram í skýrslu stofnunarinnar.

Embætti umboðsmanns skuldara hefur verið starfrækt í rúm fjögur ár og er byggt á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Frá stofnun hafa borist tæplega 9.300 umsóknir vegna
greiðsluerfiðleika, þar af tæplega 5.200 umsóknir um greiðsluaðlögun. Af um 2.500 greiðsluaðlögunarsamningum sem náðst hafa, hefur verið samið um tæplega 22 milljarða eftirgjöf skulda, að meðaltali rúmlega 8 milljónir pr. samning. Markmið embættisins er að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu í ásættanlegt horf. Þetta er í fyrsta sinn sem þjónustukönnun er framkvæmd fyrir umboðsmann skuldara.

Könnunin var send til 1.666 einstaklinga sem sótt höfðu um ráðgjöf eða greiðsluaðlögun á síðustu fjórum árum, bæði til þeirra sem höfðu fengið samþykki eða synjun á umsókn sinni.  Af um 5.200 umsóknum um greiðsluaðlögun er vinnslu lokið við rúmlega 4.900 umsóknir. Af þeim hefur 53% lokið með samningi, 30% hefur verið synjað og 17% hefur umsækjandi afturkallað umsókn sína, áður en til samnings kom.

Tekjulægri notendur ánægðari en þeir tekjuhærri

Þeir sem lögðu inn umsókn vegna greiðsluerfiðleika til umboðsmanns skuldara á árunum 2013 og 2014 eru ánægðari með þjónustu embættisins en þeir sem lögðu inn umsókn fyrr. Þá eru þeir ánægðari sem eru með mál enn í vinnslu eða fengu úrlausn sinna mála en þeir sem afturkölluðu umsókn sína eða fengu synjun. Ánægja eykst með lækkandi tekjum; er mest hjá þeim þar sem tekjur eru undir 200 þúsund en minnst hjá þeim þar sem heildartekjur heimilis eru 650 þúsund eða hærri.

Rétt rúmlega helmingur svarenda, 50,8%, sögðu að líðan sín væri nokkru eða mun betri en áður en þeir leituðu til umboðsmanns skuldara. Rúmur fjórðungur sagði líðan sína svipaða en aðrir að þeim liði verr. Þeim sem sóttu um greiðsluaðlögun líður betur nú en áður, samanborið við þá sem sóttu um ráðgjöf.

Úrræði umboðsmanns komu í veg fyrir frekari skuldasöfnun

63% svarenda segja að úrræði umboðsmanns skuldara hafi komið í veg fyrir frekari skuldasöfnun, þar af segir 31% að úrræðin hafi að öllu leyti komið í veg fyrir frekari skuldasöfnun. Þeir sem fengu aðeins ráðgjöf hjá embættinu segja í meira mæli en þeir sem fóru í greiðsluaðlögun að úrræðin hafi ekki komið í veg fyrir skuldasöfnun.

Rúmur helmingur þeirra sem búa á heimili með yfir 650 þúsund í heildartekjur segir að úrræði umboðsmanns skuldara hafi ekki komið í veg fyrir frekari skuldasöfnun, samanborið við þriðjung þeirra sem eru með lægri heildartekjur en 350 þúsund. Skýrist þetta m.a. af því að þeir sem eru með hærri tekjur eru líklegri til að hafa fengið synjun á umsókn sinni eða dregið hana til baka. Rúmlega þriðjungur umsækjenda á við tekjuvanda að stríða, þar sem tekjur duga ekki fyrir framfærslukostnaði. Sú staða breytist ekki þrátt fyrir að skuldir séu felldar niður.

Af þeim sem hafa greiðsluaðlögunarsamning telja tæp 64% sig geta staðið að öllu leyti við samninginn. Um fjórðungur telur sig geta það að nokkru eða miklu leyti. Konur segjast frekar geta staðið við sinn samning heldur en karlar. Um 10% þeirra sem hafa fengið samning um greiðsluaðlögun hafa nú þegar óskað eftir breytingu á honum, þar sem viðkomandi telur sig ekki geta staðið við samninginn.

Þrír af hverjum fjórum sem tóku þátt í könnuninni sögðu að viðmót starfsfólks umboðsmanns skuldara væri mjög eða fremur gott. Innan við 10% sögðu að það væri slæmt. Að meðali telur hópurinn sem heild að viðmótið sé fremur gott. Þeir sem hafa skilað inn umsókn síðustu tvö árin telja viðmótið betra en þeir sem skiluðu fyrr.

Rúm 40% eru ánægð með þá niðurstöðu sem þeir fengu í sínum málum hjá umboðsmanni skuldara og svipað hlutfall er óánægt. Konur eru ánægðari með niðurstöðuna en karlar og sama má segja um þá sem eru fráskildir eða einhleypir í samanburði við aðra. Ánægjan eykst eftir því sem heildartekjur heimilis eru lægri.

Tæp 43% segja fjárhagsstöðu sína betri nú en áður en leitað var til umboðsmanns skuldara. Tæpur fjórðungur segir stöðuna verri en aðrir segja hana eins eða svipaða. Að meðaltali telur hópurinn sem heild að fjárhagsstaða sín sé heldur betri en áður en lagt var af stað. Þeir sem fóru í greiðsluaðlögun eru betur settir nú en áður, miðað við þá sem fóru í ráðgjöf. Þá er núverandi fjárhagsstaða á fámennum heimilum í meira mæli betri en fyrr, borið saman við mannmörg heimili.

Könnunin var gerð af Maskínu fyrir umboðsmann skuldara. Hún var lögð fyrir notendur þjónustu embættisins dagana 23. maí til 23. júní 2014. Í endanlegu úrtaki voru 1.666 og tóku 840 þátt sem samsvarar 50,4% svarhlutfalli. Skýrsluna má finna í heild sinni hér.

mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert